Citroen C4 Cactus 2015



Citroen C4 Cactus sigraði flokk smábíla í valinu á bíl ársins 2016. Um er að ræða framhjóladrifinn smábíl með aukna veghæð umfram heðbundna bíla af þessari stærð, en þessi flokkur, sem kallast Compact – crossover á enskunni, hefur náð gríðarlegum vinsældum á undanförnum árum. Þegar svona nýjar útfærslur af „þekktum“ gerðum koma fram verður sífellt erfiðara að flokka bílana. Ekki er ólíklegt að sérstakur flokkur fyrir þessa gerð af bílum komi fram í vali á bíl ársins á komandi árum. Af sambærilegum bílum má til dæmis nefna Renault Captur, Nissan Juke og Mercedes Benz GLA.

Það sem heillaði mig mest við Cactusinn var hugmyndafræðin á bak við hönnun bílsins. Normið virðist hafa verið undanfarið að allir bílar þurfi að þyngjast milli ára, sem er svo sem skiljanlegt þegar tekið er tillit til sífellt stífari öryggiskrafa. En með því að hugsa út fyrir kassann og líta á hvað þykir nauðsynlegt og hvað ekki tókst Citroen að koma eiginþyngd bílsins niður í aðeins um eitt tonn, sem er um 200 kílóum léttari en venjulegur Citroen C4. Búið er að létta undirvagninn umtalsvert ásamt því sem vélarhlífin er úr áli og hljóðeinangrun er minni  en áður. Þetta hefur í för með sér minni eldsneytiseyðslu og mengun en ella auk líflegri aksturseiginleika.

Útlit bílsins er mjög sérstakt að utanverðu, en það fyrsta sem grípur augun eru sennilega utanáliggjandi Airbump plast-loftpúðarnir; nýjung sem Citroen hefur einkarétt á. Óháð því hvað fólki þykir um útlit þeirra eru þeir óneitanlega gagnlegir jafnt hér í hurðafeykjandi lægðum á bílastæðum matvöruverslana á Íslandi sem og á þröngum götum Parísar þar sem litlar rispur eru daglegt brauð. Púðarnir taka einfaldlega við höggi innkaupakerra, bílhurða og stöðmæla og svo nuddast rispur einfaldlega í burtu þannig að ekkert sést á bílnum. Frábært að sjá að Citroen þorir að koma með óheflaðar, nýstárlegar hugmyndir eins og þier hafa verið þekktir fyrir nær alla tíð.

Að innan er bíllinn útbúinn snertiskjá sem stýrir upplýsinga- og afþreyingarkerfinu ásamt mistöðvarstillingum. Önnur nýjung frá Citroen er að loftpúðinn fyrir farþega framsætis hefur verið færður upp í þakið, fyrir ofan framrúðuna, til að hámarka pláss í hanskahólfinu. Efnisnotkun er ekki af dýrara tagi í innréttingunni, en þó er hægt að velja um mismunandi og óhefðbundin áklæði á sætin sem gefur innra rýminu skemmtilegt yfirbragð. Hluti af sparnaði Citroen í efnisnotkun og kostnaði kemur hvað skýrast fram í aftursætum, þar sem í stað hefðbundinna „60-40“ skiptingar sætanna eru aftursætin einn heill bekkur sem fellur næstum því flatur niður. Til viðbótar er ekki hægt að skrúfa niður afturrúðurnar, heldur eru þær aðeins á litlum lömum sem geta opnað smá loftrifu.

Eins og áður segir er bíllinn lipur í akstri og neyslugrannur sökum lágrar vigtar og þökk sé hærri veghæð ætti hann að höndla hina grá-íslensku slyddu prýðilega. Í það minnsta stóð hann sig vel á þurrum malarvegum að sumri til, en sökum lítillar hljóðeinangrunar reyndist hannað vísu ansi hávær á „þvottabrettavegum“. Reynsluakstursbíllinn kom með beinskiptingu og 1,6 lítra Blue HDi dísilvél sem skilaði 100 hestöflum. Býsna skemmtileg fyrir svona léttan bíl. Einnig er hægt að fá sömu vél með sjálfskiptingu sem og 1,2 VTi bensínvél, bæði með sjálfskiptingu og beinskiptingu, en grunnverð er þá komið niður í 2.690.000 kr.

Helstu upplýsingar (1,6 Blue HDi):

Verð: Frá 3.090.000

Afköst vélar: 100 hestöfl / 254 Nm

Eldsneytiseyðsla: 3,4 l/100 km (uppgefin) / 5,2 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 89 g/km

 

Kostir:

  • Nýstárleg hönnun
  • Sparneytni
  • Lipurð í akstri

Ókostir

  • Skortur á hljóðeinangrun
  • Aftursæti og afturrúður