Skoda Octavia 2013

Skoda Octavia er Bíll ársins á Íslandi árið 2014. Sigurinn var nokkuð sannfærandi, enda skaraði Skódinn fram úr á öllum sviðum sem tekið var mið af í eikunnagjöfinni og endaði með 742 stig af 1200 mögulegum. Skoda Octavia er millistærðarbíll, byggður á MQB undirvagni Volkswagen samsteypunnar, en honum deila meðal annars VW Golf, sem vann einmitt flokk smærri bíla, Audi A3 og Seat León.  Eins og flestir bílar í dag er nýja Octavian örlítið stærri á alla kanta en fyrirrennarinn.  Ætla mætti að það myndi þyngja bílinn um of og hafa þar af leiðandi neikvað áhrif á eldsneytiseyðslu bílsins, en raunin segir annað (sjá síðar). Bíllinn er 9 cm lengri en fyrri kynslóðin, 4.5 cm breiðari og hjólhafið hefur vaxið um tæpa 9 cm. Þess má geta að það sem af er ári er Skoda Octavia mest seldi bíllinn á Íslandi og hlaut einnig þann titil árið 2011. Árið 2012, hins vegar, þurfti Skódinn að að lúta í lægra haldi fyrir Toyota Yaris.

Rými

Þótt ótrúlegt megi virðast var farþegarýmið í aftursætunum það stærsta af öllum bílum sem komust í úrslit og eru þar með taldir keppendurnir í jeppa- og jepplingaflokki. Fótapláss var meira en nóg fyrir meðalmanneskjur og jafnframt var axla- og olnbogarými meira en viðsættanlegt jafnvel þótt þrír fullorðnir sætu afturí. Ennfremur var farangursrýmið ríflegt í meira lagi (sjá mynd), jafnvel þótt reynslubíllinn hafi verið hlaðbakur (e. Hatchback). Skottið í hlaðbaknum rúmar heila 590 lítra (sem jafnframt er það stærsta í flokki bíla af þessari stærð), en 610 lítra í Combi útfærslu – þ.e. hlaðbakur (e. Station wagon).

Öryggi

Öryggi farþega er í fyrirrúmi í Skoda Octavia, en hann er útbúinn 9 loftbúðum, m.a. hliðarpúðum fyrir farþega í aftursætum og einnig fyrir hné ökumanns. Ekki nóg með það, heldur er bíllinn með svokallaða „virka vélarhlíf“, sem er blásin upp af loftbúðum og er því vænni fyrir vegfarendur sem kunna að verða fyrir bílnum. Því er betra fyrir gangandi að lenda fyrir Skoda Octavia en öðrum bílum! Því miður gafst undirrituðum (og öðrum aðilum dómnefndar) ekki tækifæri til að sannreyna gæði loftpúðanna, en kaupendur verða því að treysta orði framleiðanda. Auk þess er bíllinn útbúinn fjölda skynjara sem hannaðir eru í þeim tilgangi að koma í veg fyrir árekstur. Þá hlaut bíllinn 5 stjörnur í árekstrarprófunum EuroNCAP.

Innrétting og búnaður

Innréttingin er nær gallalaus – sætin þægileg og veita góðan stuðning, fótapláss er, eins og áður segir, talsvert og nóg er af hólfum og glasahöldurum. Bolero hljómtæki með 8 hátölurum er staðalbúnaður sem og stór og skilvirkur snertiskjár sem stýrir afþreyingu o.þ.h. USB og Aux tengi eru fyrir síma og iPod ásamt SD-kortarauf . Einnig er hægt að tengja símann við bílinn með Bluetooth og er þá bæði hægt að hringja og spila tónlist beint úr símanum. Gaman er að segja frá því að raddstýringin virkar betur en í nokkrum öðrum bíl sem undirritaður hefur prófað og reyndist leikur einn að „segja“ bílnum að hringja í hvern sem er – hversu íslenskt sem nafnið á viðkomandi kunni að vera.

Í akstri

Í akstri er fátt út á bílinn að setja. Vitaskuld eru aksturseiginleikarnir ekki sportlegir, enda ekki það sem sóst er eftir í Skoda Octavia. Sá pakki er afgreiddur af Skoda Octavia vRS sem kemur væntanlega seinna til landsins. Vélarhljóð og veghljóð eru í algjöru lágmarki, enda bíllinn einstaklega vel smíðaður og hljóðeinangraður. Fjöðrunin er viðsættanleg, en nú er notast við svokallaða „torsion-link“ afturfjöðrun í stað fjölarma (e. Multi-link) fjöðrunar. Sú fyrrnefnda er ódýrari í framleiðslu, en gerir það að verkum að fjöðrunin er ögn hastari og grófari en ella.

Vélar og eldsneytiseyðsla

Gott úrval véla er í boði, en prufubíllinn var útbúinn 1.6l TDI dísilvél með DSG-skiptingu. Einnig er í boði 2.0 TDI dísilvél og  1.2l og 1.4l bensínvélar, bæði með beinskiptingu og DSG-sjálfskiptingu. Hestöflin eru ekki íkja mörg (frá 105 í 1.2 bensín upp í 150 í 2.0 dísil), en allar vélarnar eru nokkuð sprækar fyrir því, vinna vel og eru rennisléttar í þokkabót. Kolefnislosun er svo lág í báðum dísilvélum og minni bensínvélinni, að leggja má frítt í gjaldskyld stæði í allt að 90 mínútur. Ennfremur er eldsneytiseyðslan svo gott sem engin, frá aðeins 3.8l/100 km skv. tölum frá framleiðanda sé 1.6 dísilvélin valin. Vert er að taka fram að þrátt fyrir harðan akstur í stanslausri botngjöf á Kvartmílubrautinni reyndist ógjörningur að ná eyðslunni upp fyrir 6 lítra á hundraðið!

Verð

Upp á síðkastið hefur Skoda verið að hækka gæðastaðla og bæta ímynd sína. Því fylgir (réttlætanleg) verðhækkun milli kynslóða, án þess þó að komast of nálægt verðum stóra bróður, Volkswagen. Grunnverð á Skoda Octavia með beinskiptingu og 1.2l bensínvél er 3.790.000 kr. Á hinum enda skalans er verðið á Combi útfærslu (skutbíll) með 2.0 dísilvél 5.070.000 kr. Hægt er að fá Combi-bílinn með fjórhjóladrifi og 1.6l dísilvél og er verðið á honum 4.890.000 kr.

(Öll verð miðast við verðlista Skoda á Íslandi, september 2013. Heimild: http://www.skoda.is)

 

Kostir

Heilsteyptur pakki

Vélar og gírkassar

Rými

Ókostir

Óspennandi útlit