Skoda Superb Combi 2016

faceskodi

Skoda Superb hefur verið með okkur síðan 2001, en þá tók Skoda undirvagn þáverandi VW Passat og lengdi um 10 cm og klæddi í ný föt, en var þó talsvert líkur Passatinum. Önnur kynslóð Superb var framleidd frá 2008 - 2015 og fékk bíllinn þá auðkennilegra útlit enda orðinn það vinsæll á þeim tíma að ekki reyndist þörf fyrir að líkjast VW systur sinni eins mikið. Framleiðsla nýjustu kynslóðarinnar hófst svo árið 2015 og voru fyrstu bílarnir á Íslandi afhentir nú í upphafi árs.

Margar útfærslur í boði

Nýi Superbinn er fáanlegur með bensín- og dísilvél, fram- og fjórhjóladrifi, beinskiptingu og sjálfskiptingu og í stallbaks- (sem þó opnast eins og hlaðbakur) og langbaksútfærslu. Reynsluekið var kynningarbíl sumarið 2015 í stallbaksútfærslu með framhjóladrif, beinskiptingu og 150 hestafla 1,4 lítra TSI bensínvél. Sá bíll var eini sinnar tegundar á landinu og verður ekki fáanlegur hér í þessari í útfærslu. Því verður megináherslan lögð á seinni týpuna sem reynsluekið var nú í mars; fjórhjóladrifinn Combi (langabakur) með fjórhjóladrif, DSG sjálfskiptingu og 190 hestafla 2,0 lítra TDI dísilvél. Kom hann í Ambition útfærslu með viðbættum leðursætum og 17“ álfelgum. Grunnverð stallbaksins í ódýrustu útfærslu er 4.490.000 kr og fæst langbakurinn fyrir 200.000 kr til viðbótar. Reynsluakstursbíllin kostaði hins vegar 6.140.000 kr.

Lengi getur gott bestnað

Bíllinn er glæsilegri og veglegri en nokkru sinni fyrr. Línurnar að framanverðu eru aggressívar og „axlarlínan“ meðfram allri hlið bílsins kröftugleg og gefur útlitinu ákveðinn og áberandi karakter. Munaður hefur aukist í formi betra efnisvals um stærstan hluta innrarýmis, og þá helst þar sem farþegar kunna að þreifa mest. Aukin hljóðeinangrun, fjölbreyttari tæknibúnaður og enn meira rými fyrir farþega og farangur, þótt ótrúlegt megi virðast, bætist þar við að auki. Fótapláss aftursætisfarþega er hreint út sagt hlægilegt – svo stórt er það. Bíllinn er auk þess nokkuð breiður og er því pláss fyrir þrjá fullvaxna í aftursætunum. Farangursrýmið rúmar heila 660 lítra, en því miður myndast umtalsverður hryggur þegar aftursætin eru lög niður og er því gólfið ekki alveg flatt. Ennfremur er skottið með talsvert hallandi þak til að stuðla að minni loftmótstöðu og nútímalegra útliti sem skerðir plássið þegar háum hlutum er staflað inn. Að svo sögðu gleypti Skódinn allt sem hent var í skottið á honum, hvort sem það var eldhúsborð eða trommusett. Mælaborð og margmiðlunarkerfi bílsins reyndist mjög þægilegt í notkun og ætti að vera öllum þeim er reynt hafa nýlegar afurðir frá Volkswagen eða Skoda ansi kunnuglegt og ánægjulegt, en fjallað hefur verið um kerfið hér nokkrum sinnum áður. Eftir því sem dýrari útfærslur verða fyrir valinu má finna fleiri eiginleika í þessu margmiðlunarkerfi, en reynsluakstursbíllinn var t.d. með bakkmyndavél, raddstýringu, aksturstölvu og sitthvað fleira. Fara þarf þó upp í dýrustu útfærsluna til að fá leiðsögukerfi. Allir takkar hafa góða og trausta áferð og gefa í skyn gæðasamsetningu allra íhluta. Geymsluhólf eru á víð og dreif um ökumannsrýmið, þ.á.m loftkæld hólf í miðjustokknum og hanskahólf. Sætin eru þægileg, veita góðan stuðning og er auðvelt að stilla rafstýrt ökumannssætið í fullkomna akstursstöðu.

Að auki er að finna alls kyns ltila, skemmtilega hluti í bílnum sem erfitt er að taka eftir í fyrstu; svo sem rúðusköfu í bensínlokinu, litlar luktir í skottinu sem má losa og festa með segli, lítil (ansi sniðug) skilrúm á frönskum rennilás sem má festa í gólfið á skottinu og halda farangri í skefjum, felanlega dráttarkúlu sem dregin er fram með handfangi í skottinu ásamt regnhlífum í báðum framhurðum! Eini annar framleiðandinn sem býður upp á svo gott pláss fyrir aftursætisfarþega og regnhlífar í framhurðum er Rolls Royce. Og er sá ódýrasti falur fyrir a.m.k. tífalt verð Skoda Superb.

Á veginum

Aflið úr 190 hestafla dísilvélinni er feiknagott en jafnframt togar hún 400 Nm. Það aðstoðar stóra, fjórhjóladrifna fjölskylduskrímslið að slengja sér úr kyrrstöðu í 100 km/klst á aðeins 7,6 sekúndum. Alls ekki slæmt fyrir bíl sem vegur alls 1635 kg. Það sem meira er þá rígheldur Superb í malbikið, klíndur eins og kartöflumús og fer merkilega flatur í gegnum beygjur þökk sé fágaðri fjöðrun og nokkuð stífum jafnvægisstöngum. Á sama tíma er fjöðrunin vel dempuð þannig að almennar ójöfnur í vegum eru þægilega jafnaðar út. Þó á fjöðrunin til að slá upp við merkilega litlar holur og hraðahindranir oft á tíðum. Mætti slaglengdin því vera ögn meiri til að fullkomna akstursþægindin. Allir Superb bílar eru svo útbúnir árekstrarvara sem varar ökumann við ef fjarlægð í næsta bíl þykir of lítil ásamt því að hemla sjálfvirkt sé ökumaður ekki með fulla athygli. Sá búnaður á þó stundum til að grípa inn heldur snemma, enda fann undirritaður fyrir því tvisvar að bíllinn byrjaði að hemla við gatnamót þótt enn var næg fjarlægð í bílinn fyrir framan. Útsýni úr þessum langa og mikla bíl er til fyrirmyndar og engir blindapunktar sem vert er að nefna. Saman gera svo stór afturrúðan, bakkmyndavélin og nálægðarskynjararnir lagningu í þéttbýlinu rétt rúmlega bærilega, enda bíllinn heilir 4.856 mm á lengd. Rauneyðsla þessa tæpu 400 km sem bílnum var reynsluekið reyndist svo vera aðeins 6,2 lítrar á hundraðið og fór sá akstur fram bæði í þéttbýli og úti á þjóðvegum við 5°C lofthita að jafnaði.

Að lokum

Skoda Superb er sennilega bestu kaupin á markaðnum í dag þegar tillit er tekið til aksturseiginleika, rýmis, eldsneytisnotkunar, notagildis og snjallra nýjunga. Auðvelt er að mæla með honum fram yfir sambærilega útbúinn Volkswagen Passat sem og aðra millistærðarfólksbíla á þessu verðbili. Jafnframt ætti hver og einn sem eru á þeim buxunum að versla sér dýrari lúxusbíl frá hinum „Stóru þremur“ frá Þýskalandi eða annars staðar frá að skoða Superb fyrst. Hann stendur svo sannarlega undir nafni.

Helstu upplýsingar – Skoda Superb Combi:

Verð: Frá 4.690.000 (2WD, sjsk.) (Reynsluakstursbíll: 6.140.000, 4WD, sjsk)

Afköst vélar: 190 hestöfl / 400 Nm (2,0 TDI dísilvél í reynsluakstursbíl)

Eldsneytisnotkun: 5,1 l/100 km (uppgefin) / 6,2 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 135 g/km

 

Kostir:

  • Hönnun ytra byrðis
  • Gæði innréttingar
  • Rými fyrir farþega og farangur
  • Aflmikil og eyðslugrönn vél
  • Skemmtilegir aksturseiginleikar
  • Nýsköpun og frumlegar lausnir í hvívetna

Ókostir:

  • Hallandi þaklína yfir farangursrými skerðir pláss fyrir háan farangur
  • „Hryggur“ milli aftursæta og farangursrýmis þegar sætin eru felld niður
  • Fjöðrun á til að „slá upp“ sökum lítillar slaglengdar dempara

Róbert Már Runólfsson