Rafbílar

Íslensk stjórnvöld hafa á liðnum árum haft á stefnuskrá sinni að hraða orkuskiptum í samgöngum. Með aukinni tækniþróun er ljóst að orkuskiptin eru líklega skemmra undan en áður var talið.
   Rafbílar eru alltaf að verða vænlegri valkostur í samgöngum. Tæknilega og rekstrarlega eru rafbílarnir orðnir mun betri en fyrir fáum árum. Stjórnvöld hafa einnig eflt tímabundið samkeppnishæfni rafbíla með því að fella niður innflutningsgjöld og virðisaukaskatt af rafknúnum bílum. FÍB fagnar þessum aðgerðum stjórnvalda til þess að draga úr hindrunum við innleiðingu á nýrri og umhverfisvænni tækni.
   Bíllinn veitir okkur mikið frelsi og á hundrað árum hefur hann orðið helsta samgöngutæki heimsins. Bíllinn hefur átt mikinn þátt í aukinni velmegun á liðnum áratugum. Á Íslandi hefur bíllinn haft jákvæð áhrif á tengingu byggða, menningartengsl og athafnalíf.
   Hér á landi er nánast öll raforka endurnýjanleg framleiðsla. Nú þegar er til næg raforka í landinu til að fullnægja orkuþörf alls bifreiðaflota landsmanna. Rafbíllinn hentar íslenskum orkubúskap mjög vel sérstaklega í ljósi frekari framþróunar rafbíla og rafhlaðna. Allt þetta gefur Íslandi mikla möguleika á að verða með fyrstu löndum í heimi sem nýtir næstum eingöngu endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og til húshitunar.