Rafhlöður

Hvernig er akstursdrægni rafbíla mæld?

Treystum ekki blint á það sem kemur fram í auglýsingum og kynningarbæklingum. Viðmiðanir framleiðanda sem eru í samræmi við NEDC, eða  New European Driving Cycle, sem er staðall sem síðast var uppfærður árið 1997 eða löngu áður en rafbílar urðu raunverulegur valkostur á markaði. Markmiðið með NEDC staðlinum er að meta eldsneytiseyðslu og mengun fólksbíla. NEDC staðallinn var upphaflega notaður til að mæla notkun á jarðefnaeldsneyti en er einnig notaður til að mæla orkunotkun rafbíla.

Athugið raunverulega akstursdrægni

Uppgefin akstursvegalengd samkvæmt NEDC staðlinum er umdeild en fram að þessu hefur skort annað viðmið og aðra staðla.  Í Bandaríkjunum hefur verið notast við svonefndan EPA staðal. Til viðmiðunar þá er uppgefin akstursdrægni Nissan LEAF af árgerð 2017 með 30 kWh-rafhlöðu samkvæmt NEDC 250 km en fer niður í 172 km samkvæmt EPA staðlinum. Það er viðurkennt að það skiptir máli varðandi sölu á rafbílum að geta gefið upp sem mesta akstursdrægni.  Umboðs- og söluaðilar bíla eru meðvitaðir um að akstursdrægni þeirra bíla er ekki í samræmi við viðmiðanir NEDC staðalsins.  Flestir vandaðir söluaðilar kynna það fyrir væntanlegum kaupendum.

Nýr staðall á leiðinni

Hvorki NEDC eða EPA eru fullkomin viðmið.  Nýr staðall WLTP (World Harmonised Light Vehicle Test Procedure) sem er samhæfður fyrir allan heiminn og gengur út á ,,raunverulega akstursprófun“ þar sem m.a. er tekið tillit til fleiri raunverulegra þátta s.s. þyngdar farms og og farþega.  WLTP staðallinn á að gefa mun raunhæfari niðurstöður varðandi eldsneytiseyðslu, orkunotkun, útlosun mengandi efna og akstursdrægni.  WLTP staðallinn  á að taka yfir allar gerðarviðurkenningar nýrra fólksbíla í Evrópu frá og með 1. September 2018. 

Hvað hefur áhrif á akstursdrægni rafbíla?

Það er eitt að setja staðla til viðmiðunar en raunveruleg notkun er eina almennilega mælingin. Það er margt sem þar getur haft áhrif á drægni, m.a.:

Aksturslag

Vegur og undirlag

Hitastig

Úrkoma

Klifur (akstur upp brekku)

Hjólbarðar og loftþrýstingur í dekkjum

Hleðsla eða farmur bílsins

Hvort rafhlöður bílsins eru heitar eða kaldar við ræsingu

 

Orkunotkun og drægni

Margir rafbílar sýna orkunotkunina jafnóðum. Ökumaður getur séð hve mikið drægi er eftir miðað við sama aksturslag og aðstæður. Í stað þess að sjá hversu langt þú getur ekið á lítra af eldsneyti, reiknar tölva bílsins út hversu margar vattstundir (Wh) bíllinn notar á hvern kílómetra eða hversu mörgum kílóvattstundum (kWh) þú eyðir á hvern kílómetra. Nissan LEAF notar venjulega 1,5 kWh á 10 kílómetra en Tesla notar um 2 kWh á hverja 10 kílómetra. Auðvitað veltur þetta allt á veðri, aksturslagi og öðrum framangreindum þáttum.

Það mikilvægasta varðandi mat á akstursdrægni rafbíls er að vera með raunhæfar væntingar.  Aflið upplýsinga hjá söluaðila og prufuakið bílnum við raunverulegar aðstæður til að fá tilfinningu fyrir drægni og orkunotkun. 

Getur maður treyst upplýsingum bílsins?

Sumir rafbílar veita einfaldar upplýsingar með strikamerkingum eða með kílómetratölu um hvað sé hægt að aka langt á þeirri hleðslu sem eftir er á rafhlöðunum. Nýrri og háþróaðri bílar veita betri yfirsýn um orkunotkun í augnablikinu og að meðaltali. Sumir bílar styðjast einnig við meðaltal yfir tíma miðað við aksturslag þess sem hefur verið að aka bílnum. Í mörgum bílum er mögulegt að setja inn áætlaða akstursleið og þá gerir aksturstölvan ráð fyrir aðstæðum í landslagi, t.d. brekkur, og gefur nákvæmari áætlun um drægni.

Því háþróaðri sem bíllinn er því meira þarf að setja sig inn í hlutina og læra sem aftur gefur  nákvæmari upplýsingar og yfirsýn yfir akstursdrægnina.

Þarf að óttast akstursdrægnina?

Hvenær varstu síðast að velta fyrir þér hversu stór bensíntankur bílsins þíns væri? Mögulega veist þú það ekki þar sem þú treystir á bensínmæli bílsins.

Með fjölgun hleðslustöðva fyrir rafbíla og stærri rafhlöðum er enn minni ástæða til að vera með drægnikvíða. Flestar daglegar ferðir eru vel innan þeirrar vegalengdar sem þarf að aka til að tæma af rafhlöðunum. Að auki geta flestir rafbílaeigendur gengið að sólarhrings hleðslustöð heima hjá sér.

Notkun rafbílsins

Ökulag, lofthitastig, notkun á rafbúnaði og margar brattar brekkur hafa áhrif á drægi rafbíls.

En sem betur fer fleygir tækninni fram. Rafbílar dagsins í dag eru verulega langdrægari en rafbílar fyrir fáum árum voru. En engu að síður hafa þeir sínar takmarkanir.

Sparakstursökulag er mun nauðsynlegra á rafbíl en á hefðbundnum brunahreyfilsbíl. Á rafbíl er það mikilvægt að aka á sem jöfnustum hraða og vera ekki þungstígur á inngjöfinni og fara af henni hvenær sem færi gefst og alltaf þegar ekið er niður brekkur. Þegar rafbíll rennur niður brekkur er hann um leið að endurnýta hreyfiorkuna, breyta henni í rafstraum og hlaða inn á rafgeymana. Það rafmagn nýtist síðan upp næstu brekku.

Óvinurinn - kuldinn

Afköst rafhlaðanna rýrna í kuldum á sama hátt og hjá rafgeymum í venjulegum bílum. Í vetrarkuldum finna rafbílaeigendur fyrir þessu með því að drægið styttist. Í ofanálag þarf að nota miðstöð, rúðu- og sætahitara og þesskonar búnaður krefst mikillar orku og hraðar gengur því á orkuforða geymanna. Þetta er svipað og í hefðbundnum brunahreyfilsbílum sem verða mun eldsneytisfrekari í kuldum. Mundu því að drægið styttist og mundu að stinga bílnum oftar og í tæka tíð í hleðslu í kuldatíðinni.  

Sparnaðarráð

Þegar lækka tekur á geymunum og tvísýnt verður um hvort þú nærð í áfangastað er rétt að grípa til ,,hagræðingaraðgerða.“ Lækkaðu eða slökktu á öllum ónauðsynlegum rafbúnaði eins og útvarpi og miðstöð og aktu eins og þú sért í sparaksturskeppni.

Í daglegri akstursnotkun er ástæðulaust að óttast að verða straumlaus. Drægi nýrra og nýlegra rafbíla er það mikið að nægir fyllilega til daglegra þarfa og vel það. En þurfir þú að bregða þér lengra skaltu kynna þér hversu margar hleðslu- og hraðhleðslustöðvar eru á leiðinni sem þú ætlar.