Umhverfisvænn akstur

 

 

Ráðleggingar FÍB um umhverfisvænan akstur

Umhverfismengun er alheimsvandamál sem lætur engan ósnortinn. Við vitum að gróðurhúsaáhrifin eru staðreynd en ekki hugarórar umhverfisspámanna um endalok jarðar. Barátta mannsins gegn eigin mengun er hafin. Hér á landi erum við farin að verða vör við mengunina og hver og einn hlýtur að spyrja sig: Hvað er hægt að leggja af mörkum til að draga úr þeirri ógn sem mengun er lífríki jarðar. Í þessum bæklingi eru nokkur einföld ráð sem gera ökumönnum kleift að vinna gegn umhverfismengun.

Ökumenn geta dregið úr mengun með ýmsum ráðum

Þegar þú kaupir ...

· Ekki kaupa stærri bíl en þú þarft. Stærri bílar eyða meiru.
· Veldu bíl sem er sparneytinn,
· Allt sem gert er til að draga úr bensíneyðslu sparar peninga og dregur úr mengun.
· Hafðu í huga að hægt er að fá hjólbarða sem draga úr núningsmótstöðu vegar.
· Minni núningsmótstaða, minni bensíneyðsla.

Þegar þú getur...

· Gakktu eða hjólaðu styttri vegalengdir.
· Skipuleggðu samflot í bíl með öðrum þegar hægt er að koma því við.
· Notaðu strætó ef mögulegt er.
· Minni mengun fylgir fullnýttum strætisvagni en ferð farþeganna sömu leið í einkabílum.

Þegar þú notar bílinn...

· Skipuleggðu útréttingar. Betra er að stoppa nokkrum sinnum í einni ferð en fara margar stuttar ferðir.
· Það styttir ekna vegalengd og eykur virkni hreinsikúta (katalísatora).
· Vinnsluhiti hreinsikútsins er 400 til 800 gráður á C.
· Virkni kútsins er best eftir þriggja til fimm km. akstur.
· Hraðakstur eykur bensíneyðslu og veldur umhverfisspjöllum.
· Aktu á löglegum hraða, það borgar sig.
· Aktu af stað með jöfnum hraða, sparaðu inngjöfina og forðastu snögghemlun.
· Þú sparar bensín og dregur úr mengun.
· Veldu greiðfærar umferðargötur til að draga úr stoppum.
· Það að hita bílvélina í meira en 30 sekúndur veldur óþarfa mengun.
· Stöðvaðu hreyfilinn ef bíllinn er í hægagangi meira en eina mínútu.
· Hægagangur í eina mínútu er bensínfrekari en gangsetning.

Þegar þú yfirferð bílinn...

· Skiptu reglulega um olíu, loft- og olíusíu í samræmi við ráðleggingar framleiðanda.
· Vélin gengur léttar og slitnar minna.
· Hafðu loftþrýsting í hjólbörðunum sem næst því hámarki sem framleiðandi gefur upp.
· Það dregur úr bensíneyðslu og eykur endingu hjólbarðanna.
· Þjónustaðu bílinn í samræmi við ráðleggingar í eigendahandbókinni.
· Það er mikilvægt til þess að halda mengun frá bílnum í lágmarki.
· Mjög mikilvægt er að stilla gang bílsins.
· Sá kostnaður sem því kann að fylgja skilar sér fljótt aftur með minni bensíneyðslu og auðvitað heilnæmara umhverfi.
· Aktu ekki með óþarfa hluti sem auka þyngd bílsins.
· Hvert aukakíló í bílnum þýðir aukna bensínnotkun.
· Forðastu að aka um með tóma farangursgrind eða opna glugga, það eykur verulega loftmótstöðu og þar með bensíneyðslu og mengun.

Þegar þú skiptir um...

· Mundu að henda aldrei notaðri vélarolíu í niðurföll eða á jörðina, þetta eru eiturefni.
· Vinsamlegast fáðu upplýsingar um móttöku á úrgangsolíu til endurvinnslu.
· Skilaðu notuðum hjólbörðum til þeirra sem geta endurunnið þá.
· Ónýtum rafgeymum á ætíð að skila til endurvinnslu.  Nánari upplýsingar hjá rafgeymaþjónustum og olíufélögum.

Taktu rólega af stað...

Dragðu úr hraða og haltu snúningshraðanum niðri. Jafn og stöðugur hraði bætir eldsneytisnýtinguna, sparar eldsneyti og minnkar slit á vél, hjólbörðum, skiptingu og bremsum. Með auknum hraða eykst viðnámið og því versnar eldsneytisnýtingin eftir því sem hraðar er ekið. Forðastu að taka hratt af stað. Að stíga gjöfina í botn þegar græna ljósið kviknar hækkar snúningshraðann og minnkar eldsneytisnýtinguna. Að halda sig á eða rétt neðan við hámarkshraða og fylgjast með snúningshraðanum getur haft mikil áhrif á umhverfið og minnkað eldsneytiskostnaðinn. Fyrir hverja 15 km. á klst. sem þú dregur úr hraðanum getur nýting eldsneytis batnað um 10-15%.

Hugsaðu fram í tímann...

Reyndu að sjá stoppin fyrir og láttu bílinn draga sjálfan úr hraðanum eins og hægt er. Forðastu aukna mengun, sóun á eldsneyti og slit á bremsum sem skapast af því að taka hratt af stað og snögghemla síðan. Sýndu skynsemi þegar þú finnur þér leið gegnum umferðina. Skapaðu bil milli þín og bílsins á undan og reyndu að sjá möguleikana fyrir.