26.300 fórust í umferðinni í Evrópu 2015

European Transport Safety Council (ETSC) hefur gefið út samantekt um umferðarslys ársins 2015 í Evrópu. Samantektin er byggð á umferðarslysatölum hvers ríkis um sig og sýnir að banaslysum fjölgaði um eitt prósent miðað við árið á undan. ETSC bendir sérstaklega á fjóra megin áhættuþætti að baki slysanna.

Alls fórust 26 300 manneskjur 135.000 slösuðust alvarlega í umferðinni á Evrópska efnahagssvæðinu 2015. Það er um eins prósents aukning miðað við 2014, sem veldur vonbrigðum því að sameiginlegt og yfirlýst markmið ríkjanna er að fækka banaslysunum um 50 prósent milli 2010-2020. Fyrstu fjögur ár tímabilsins nam fækkunin að meðaltali 3,6 prósentum. En eigi 50 prósenta markmiðið að nást þarf banaslysunum að fækka um 6,7 prósent á hverju því ári sem eftir er af tímabilinu fram til 2020.

En frá því að átakið –Áratugur aðgerða gegn umferðarslysum hófst árið 2010 hefur vissulega náðst mikill árangur að mati ETSC. Sparast hafa 20 580 mannslíf og í beinhörðum peningum hafa sparast 40,6 miljarðar evra. Þeir útreikningar byggjast á því að ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu hafa loks komið sér saman um hvað umferðarslysin og alvarleg meiðsli og dauði sem þeim fylgja kosta samfélögin þegar allt er talið og hvernig skuli reikna þann kostnað út. Þessvegna er nú í fyrsta sinn hægt að birta slíkar tölur.

ETSC bendir á fjóra þætti sem megin orsakavalda í stærstum hluta alvarlegu slysanna. Þeir eru:

Of hraður akstur 

Hann er meginorsök þriðjungs allra banaslysa og þar að auki veigamikil meðorsök mjög margra annarrar slysa.

Ölvunar- og lyfjaáhrif

Ölvun er meðorsök um 25 prósenta allra banaslysa. Samkvæmt ETSC aka um það bil tvö prósent ökumanna í umferðinni í Evrópu undir áhrifum.

Öryggisbelti

Um 90 prósent ökumanna og framsætisfarþega spenna öryggisbeltið og 71 prósent aftursætisfarþega. Ef báðar þessar hlutfallstölur hækkuðu upp í 90 prósent myndu um það bil 900 mannslíf sparast á hverju ári.

Farsímanotkun

Farsímanotkun ökumanna er að því er fram kemur hjá ETSC ekki nægilega vel ljós. En varfærnar rannsóknir sem gerðar hafa verið sl ár benda til þess að milli 10-30 prósent allra umferðarslysa megi rekja til farsímanotkunar ökumanna.

Hvað er til ráða?

Sem fyrsta skrefið í þá átt að fækka umferðarslysunum leggur ETSC til að fjölga strax í umferðarlögreglu og gera hana sýnilegri. Það sé sú aðgerð sem hafi sýnt sig að vera sú sem best dugar gegn stóru áhættuþáttunum í umferðinni sem taldir eru upp hér að framan.