31,7% fleiri nýir bílar seldust á Íslandi 2016 en árið áður

Sala á nýjum bílum í Evrópu jókst árið 2016 um 6,5 prósent frá 2015. Alls keyptu íbúar Evrópska efnahagssvæðisins (ES og EFTA) 15 milljón 131 þús.719 bíla í fyrra og af þeim keyptu Íslendingar 18.448 bíla miðað við 14.004 árið 2015, sem er 31,7 prósenta aukning.  Nýbílasalan í Evrópu í fyrra er sú mesta undanfarin níu ár. Þetta kemur fram í tölugögnum ACEA sem eru samtök evrópskra bílaframleiðenda.

Aukningin milli áranna 2015 og 2016 á Íslandi (31,7%) er hlutfallslega sú mesta í Evrópu. Næst mest varð hún í Ungverjalandi, 25,1% og sú þriðja mesta varð í Króatíu, 23,5%. Samdráttur varð í tveimur ríkjanna milli áranna 2015 og 2016. Þau eru Holland -14,7%  og Sviss -2%.  

Af einstökum tegundum bíla reyndust flestar nýskráningar í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins vera á Volkswagen. Alls voru 1.720.829  Volkswagenbílar  nýskráðir miðað við 1.728.388 bíla árið áður, sem er 0,4% samdráttur. Næst flestar nýskráningar voru á Renault; 1.100.880 á móti 945.453 árið 2015. Það er 12,9% aukning. Í þriðja sæti kemur svo Peugeot með 865.374 nýskráningar móti 856.194 árið á undan sem er 1,1% aukning.