Áhugaverðir Ladabílar frá Rússlandi

Nú stendur yfir alþjóðlega bílasýningin í Moskvu. Þar gefur að líta ýmsar bílategundir sem sjaldgæfar eru hér, svo sem kínverskar. En merkustu nýjungarnar ef til vill, eru af gamalkunnugri tegund – Lada.

Lada eða AvtoVAZ sem nú er undir regnhlíf Renault-Nissan samsteypunnar, ætlar sér greinilega sinn skerf á Evrópumarkaði því að þeir hugmyndabílar sem nú eru sýndir í Moskvu eru mjög í anda þess sem Renault er að gera um þessar mundir. Þeir eru bæði fallega hannaðir og áhugaverðir enda er tæknihlið bílanna ættuð frá Renault og Nissan.

Sá Ladabíll sem mesta athygli hefur fengið í Moskvu er XCODE sem er meðalstór jepplingur byggður (líklegast) á BO-undirvagninum eins og Renault Kadjar, Nissan Juke og Dacia Duster o.fl. Auk XCODE sýnir Lada nýjar útfærslur af Lada Vesta sem þegar er byrjað að fjöldaframleiða. Þær nefnast XRay og Vesta SW Cross Concept. Hér má sjá myndir af þessum hugmyndabílum sem og öðrum Ladabílum sem þegar eru í almennri sölu í Evrópu, m.a. hjá innflytjanda Ladabíla í Þýskalandi

En það er kannski áhugavert að vita að gamli Lada Sport jeppinn sem var einn mest seldi bíll á Íslandi fyrir allmörgum árum, er ennþá framleiddur og heitir nú Lada 4X4. Hann er með nýjasta og fullkomnasta mengunarbúnaði og uppfyllir nýja Euro-6 mengunarstaðalinn og kostar frá 10.500 evrum eða um 1,4 millj. krónur.