Álag á eldsneyti lækkað og dregið úr hækkun kolefnisgjalds

Í vinnu við nýtt fjárlagafrumvarp verður sett ákveðið mark á bæði tekju- og gjaldahlið og segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vinnuna í þeim efnum ganga vel.

Ráðherrann vill ekki ræða einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins en bendir þó á að álag á eldsneyti verði endurskoðað að því fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag verður gengið frá tillögum nýrrar stjórnar og er gert ráð fyrir að fjárlagafrumvarpið sjálft verði svo tilbúið til framlagningar á miðvikudag í næstu viku.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að draga eigi úr hækkun kolefnisgjalds frá því sem boðað var í fjárlagafrumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaráætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð.

Í aðgerðaráætlun verða meðal annars sett markmið um samgöngur og hlutfall ökutækja sem ganga fyrir vistvænni orku í bílaflota landsins.