Áreiðanlegustu og óáreiðanlegustu bíltegundirnar 2016

Hvaða bílaframleiðendum treystir þú best til að framleiða áreiðanlega bíla og hversu áreiðanlegir hafa framleiðendurnir reynst til að verðskulda traustið?

Aksturseiginleikar, þægindi, fögur hönnun, notagildi, allur nýjasti og besti rafeinda- og stjórnbúnaðurinn og hljómmestu hljómtækin eru einskis virði ef bíllinn sem um ræðir er óáreiðanlegur og ekki hægt að treysta á hann eða jafnvel að sölu- og þjónustuaðilar standa sig illa gagnvart neytendum.  Áreiðanleikinn er sá þáttur sem þyngst vegur hjá bílakaupendum nútímans. Því þarf víst fáa að undra að einstakir bílar og bílaframleiðendur eru í mismiklum hávegum hafðir hjá bifreiðaeigendum.

Bílatímaritið Auto Express kannar á hverju ári viðhorf breskra bifreiðaeigenda til þessara mála og hefur nýlega birt niðurstöður hennar fyrir þetta ár. 50 þúsund bifreiðaeigendur svöruðu fjölda spurninga um hvernig þeim líkaði við bíla sína og hversu áreiðanlegir þeir væru. Út frá svörunum er svo ráðið hvaða bílar eru áreiðanlegastir að mati bifreiðaeigenda og hvaða bílaframleiðendum er best treystandi til að setja saman góða bíla og hverjum ekki.  Óhætt er að segja að niðurstöðurnar koma talsvert á óvart hvað varðar sumar tegundirnar.

Á lista ársins 2016 yfir framleiðendur áreiðanlegustu bíltegundanna eru japönsku framleiðendurnir ennþá áberandi og meðal þeirra 10 efstu eru Lexus, Toyota, Honda, Mazda, Suzuki og Subaru. En það kemur mjög á óvart að sjá Tesla í efsta sætinu og Dacia frá Rúmeníu í því þriðja, (en samsetta myndin er af þessum tveimur tegundum). Dacia bílar eru meðal al ódýrustu og einföldustu bíla sem nú fást í V. Evrópu. Þeir eru að hluta byggðir úr einingum sem ætlaðar voru í Renault bíla sem dottnir eru úr framleiðslu (og tísku). En með Dacia sannast að það er alls ekki samasemmerki milli þess að einfaldleiki og lágmarks hönnunar- og framleiðslukostnaður skili af sér handónýtri vöru.  

En kannski er stærsta fréttin í þessu sú að nýgræðingur í bílaframleiðslu sem einungis framleiðir dýra rafbíla í mjög takmörkuðu magni og aðeins eina gerð – Tesla S enn sem komið er  -  skuli svona skyndilega vera orðinn sá sem nýtur mestrar tiltrúar sem framleiðandi áreiðanlegra bíla.  

Á listunum hér á eftir sést hvernig bílaframleiðendurnir raðast á áreiðanleikalistann hjá breskum neytendum.

 Áreiðanlegustu tegundirnar

1. Tesla

2. Lexus

3. Dacia

4. Toyota

5. Honda

6. Mazda

7. Suzuki

8. Skoda

9. Subaru

10. Kia

Í neðstu 10 sætum áreiðanleikalistans gefur að líta framleiðendur sem ætla mætti að nytu meiri tiltrúar en raun ber vitni og ættu að geta gert betur. Mini, sem um árabil hefur verið í eigu BMW, vermir botnsætið. Athyglisvert er einnig að sjá hversu neðarlega hið japanska merki Nissan, situr. Hvað varðar Audi og VW þá má trúlega rekja stöðu þeirra merkja á listanum að meira eða minna leyti til útblásturshneykslisins sem mjög hefur verið í fréttum frá því síðla síðasta árs.

Óáreiðanlegustu tegundirnar

 23. Audi

24. Fiat

25. Hyundai

26. Ford

27. Alfa Romeo

28. Nissan

29. VW

30. Land Rover

31. Jeep

32. MINI