Bíll ársins 2017 í Danmörku er Peugeot 3008

Það var lengst af mjótt á munum milli tveggja efstu bílanna í vali á bíl ársins 2017 í Danmörku. En í lokaatkvæðagreiðslu dómnefndarinnar réðu síðustu þrjú atkvæði dómnefndarinnar úrslitum og tryggðu nýja jepplingnum Peugeot 3008 sigurinn með 167 stigum yfir Alfa Romeo Giulia sem varð í öðru sæti og hlaut 149 stig.

Enn minni munur varð milli Seat Ateca í þriðja sætinu og Mercedes Benz E í því fjórða. Seat Alteca hreppti þriðja sætið með 84 stigum en Benzinn  það fjórða með 83 stigum. Í fimmta sætinu varð svo Suzuki Baleno og hlaut hann 67 stig. Sigur Peugeot markar nokkur tímamót því þetta er í fyrsta sinn í 49 ára sögu vals á bíl ársins í Danmörku sem jeppi/jepplingur hreppir efsta sætið.

Valið í Danmörku  fer fram á svipaðan hátt í Danmörku og hér á Íslandi. Þar eins og hér er það klúbbur bílablaðamanna sem stendur að valinu bílablaðamanna. Í sjálfri valnefndinni áttu 22 blaðamenn frá helstu fjölmiðlum landsins sæti, þar af tveir frá FDM, systurfélagi FÍB.  Sjálft valið fór fram í þremur áföngum: Í þeim fyrsta eru allar nýjar gerðir og tegundir bíla teknar í reynsluakstur, bæði í almennum akstri og í akstri inni á Jyllands Ringen sem er lokuð kappaksturs- og æfingabraut í eigu FDM.

Í öðrum áfanga útnefnr hver einstakur valnefndarmaður þá fimm bíla sem hann telur að eigi erindi í úrslit.

Í þriðja áfanga eru úrslitabílarnir fimm skoðaðir sérstaklega og þeim reynsluekið enn frekar og þeir metnir og greidd um þá atkvæði. Sérhver valnefndarmanna hefur til umráða 25 stig sem hann miðlar milli bílanna fimm þannig þó að hann verður að gefa öllum bílunum fimm einhver stig og mest má gefa einum einstökum bíl 10 stig og ekki má hann heldur gefa tveimur bílum sama stigafjölda.

Fjórði áfanginn er svo lokatalning stiga sem fram fer á sérstökum viðburði þann 1. desember þar sem bíll ársins er útnefndur.