Borgin boðar 60% hækkun aukastöðugjalda og allt að 40% hækkun stöðugjalda

Lélegt viðhald gatna og hverskonar manngerðir trafalar, fækkun bílastæða og ofurhækkanir stöðugjalda…
Lélegt viðhald gatna og hverskonar manngerðir trafalar, fækkun bílastæða og ofurhækkanir stöðugjalda. Er þetta birtingarmynd samgöngustefnu?

Samkvæmt nýlegri samþykkt borgarstjórnar hækka gjaldskrár borgarinnar fyrir ýmis viðvik frá og með næstu áramótum..Jafnaðarlega hækka tekjur borgarinnar fyrir flest þessi viðvik um 2,4 prósent, en einn þáttur sker sig algerlega og freklega úr. Það eru bílastæðagjöldin. Aukastöðugjöld sem leggjast á bíla sem fara fram yfir greiddan stöðutíma hækka um 60 prósent og sjálf stöðugjöldin hækka um 10-50 prósent – misjafnt eftir gjaldsvæðum.

FÍB telur fulla ástæðu til að vekja á þessu athygli enda eru þessar fyrirhuguðu hækkanir lýsandi fyrir ríkjandi viðhorf stjórnar borgarinnar til bifreiðaeignar og -notkunar fólks. Bifreiðaeign venjulegs fólks er þessum þjónum almennings greinilega lítt að skapi og ljóst að þeim þyki í góðu lagi að vega að fjárhag og lífsgæðum umbjóðenda sinna og gera þeim þungar kárínur (misþungar eftir búsetu innan borgarinnar) fyrir það eitt að eiga bifreið. Það er verulega ámælisvert að kjörnir fulltrúar borgarbúa skuli fara að á þennan hátt gagnvart fólki  í stað þess að eiga við það samræðu og samráð um framtíð samgangna og hreyfanleika í höfuðborg Íslands