Dacia Duster mest seldi sportjeppi landsins

Dacia sem BL kynnti sem nýtt bílamerki hjá fyrirtækinu haustið 2012 er nú orðið tíunda mest selda merki landsins og með sölu á áþekku róli og Skoda. Það sem meira er, er að Dacia Duster trónir nú á toppi sölulistans þegar kemur að sportjeppunum.

Það sæti hefur Nissan Qashqai vermt hér á landi frá því að hann kom á markaðinn, en er nú sem stendur í fjórða sæti enda þótt hann sé enn mest seldi sportjeppinn á meginlandinu.

Boðið er upp á þrjár gerðir frá Dacia hér á landi, sportjeppann Duster, sendibílinn Dokker og langbakinn Logan og hafa yfir 600 bílar verðið skráðir það sem af er árinu, 76% fleiri en fyrstu sex mánuðina 2016.

Duster hefur frá upphafi verið vinsælasti Dacia-bíllinn, bæði á einstaklingsmarkaði og hjá fyrirtækjum. Bíllinn hlaut strax í upphafi góðar móttökur og hefur salan vaxið jafnt og þétt á hverju ári.

Fimmti stærsti bílaframleiðandi Evrópu

Rúmenski bílaframleiðandinn Dacia var settur á fót árið 1966 þegar bílaverksmiðja Renault í Frakklandi sem framleiddi Renault 8 var seld til Rúmeníu. Renault-Nissan Group keypti svo fyrirtækið árið 1999 og hóf að selja hann utan Rúmeníu.

Síðan hefur salan margfaldast og seldust yfir 600 þúsund bílar í Evrópu á síðasta ári. Dacia er nú fimmti stærsti bílaframleiðandi Evrópu og bílarnir á meðal þeirra mest seldu í álfunni þar sem hann hefur sótt hart að mörgum helstu merkjunum sem fyrir voru á markaðnum. Dacia er í dag langstærsta útflutningsfyrirtæki Rúmeníu.

Dacia var í upphafi eingöngu ætlaður til heimabrúks í Rúmeníu. Þegar Renault-Nissan Group keypti fyrirtækið 1999 varð í kjölfarið bylting á gæðasviðinu enda fylgir Renault-Nissan meðal annars þeirri stefnu að nýta þá íhluti í Dacia frá Renault og Nissan sem reynst hafa hvað best þegar kemur að endingu og áreiðanleika.

Bílarnir eru því þekktir á markaðnum fyrir lága bilanatíðni og mikið rekstraröryggi. Að sama skapi er Dacia laus við allra flóknustu tækniundrin sem einkenna mörg helstu merkin á markaðnum í dag. Það þýðir þó ekki að Dacia sé ekki vel búinn. Þvert á móti státar Dacia, og ekki síst Duster, af veglegum þæginda- og öryggisbúnaði.

Meðal búnaðar í Duster má nefna hraðastilli, bakkskynjara, leiðsögukerfi með Íslandskorti, stöðugleikastýringu, loftkælingu, handfrjálsan símabúnað, langboga á þaki og fleira auk þess sem hægt er að velja úr fjölbreyttu úrvali aukahluta í bílinn. Duster er búinn 110 hestafla dísilvél sem eyðir að meðaltali 5,3 l 100/km.