Flokkarnir og samgöngumál

FÍB sendi öllum framboðum til Alþingis í kosningunum á morgun 29. október fyrirspurn um áherslur í samgöngumálum. Settar voru fram 7 spurningar sem varða uppbyggingu samgöngumannvirkja, fjármögnun og valkosti. Einnig var spurt um afstöðu til rafbílavæðingar og mögulegt notkunargjald af rafbílum í framtíðinni til innviðauppbyggingar.

Tíu framboð svöruðu en Dögun náði ekki að svara innan tímamarka.
Gott og öruggt vegakerfi er lykillinn að farsælli uppbyggingu samfélagsins. Það þarf að setja samgöngumálin og umferðaröryggi í forgang og FÍB hvetur félagsmenn og aðra vegfarendur til að kynna sér svör framboðanna hér á eftir.

 

1. Samkvæmt nýsamþykktri samgönguáætlun hækkar  framkvæmdafé til nýframkvæmda og viðhalds í vegakerfinu um rúma 6 milljarða miðað við fyrri drög. Vegagerðin hefur áætlað að til nýframkvæmda og viðhalds þurfi að verja 35 milljörðum á ári næstu tíu ár til að koma vegakerfinu í ásættanlegt horf en samkvæmt nýju samgönguáætluninni verður varið um 32 milljörðum.

Hver er afstaða framboðsins?       

Er nóg að verja 32 milljörðum í vegakerfið á ári?

Er of lítið að verja 32 milljörðum á ári?

Er of mikið að verja 32 milljörðum á ári?

Annað?

 

Svör framboðana: 

 

Björt Framtíð (A)

Björt framtíð telur að mæta beri faglegu mati Vegagerðarinnar. 

 

Framsókn (B)

Vegakerfið hefur stórlega látið á sjá vegna viðhaldsleysis á aðeins örfáum árum. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að ein mikilvægasta fjárfesting landsmanna sé fólgin í áframhaldandi uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Stórauka þarf framlög til viðhalds og nýbyggingu vega. Auka þarf umferðaröryggi og vinna kerfisbundið eftir sérstakri umferðaröryggisáætlun.
Á næsta ári skal ráðast í sérstakt átaksverkefni til að bregðast við því hættuástandi sem víða hefur skapast í vegakerfinu.

 

 

Viðreisn (C)

Í kjölfar efnahaghrunsins varð að fresta aðkallandi og jafnvel bráðnauðsynlegum framkvæmdum og viðhaldi á vegakerfinu. Vandinn, sem blasir við nú, er bæði samsafnaður vandi vegna þessa og svo nýr vandi samfara auknu álagi á vegakerfið af völdum fjölgunar ferðamanna. 

Mat Vegagerðarinnar á fjárhagsþörf til viðhalds og framkvæmda er ekkert ofmat en mestu skiptir ábyrg tekjuöflun til uppbyggingar innviða. Viðreisn leggur til að tekið verði upp markaðstengt gjald af auðlindum í sameign þjóðarinnar. Tekið verði upp afgjald í ferðaþjónustu til að stuðla að ábyrgri aðgangsstýringu og dreifingu ferðamanna, uppbyggingu og skipulagi innviða og vernd náttúru landsins. Tekjum, sem aflast með þessum hætti, verði fyrst og fremst varið til uppbyggingar innviða.

Viðreisn vill því verja meira en 32 milljörðum til innviðauppbyggingar og ætlar m.a. að nota fyrrnefnt auðlindagjald til þess. 

 

Sjálfstæðisflokkur (D)

Sú aukning á fé til nýframkvæmda og viðhalds sem lögð er til i samgönguáætlun er afar mikilvæg, en fjárþörfin er meiri. Það er mjög mikilvægt að tryggja skynsamlega og hagkvæma nýtingu þess fjár sem ráðstafað er. Þá getur verið skynsamlegt eins og fram kemur í svari við spurningu 2 að fá einkafjármagn til frekari uppbyggingar.

 

Íslenska þjóðfylkingin (E)

Íslenska þjóðfylkingin telur það forgangsatriði að farið verði að ráðleggingum vegagerðarinnar enda öllum landsmönnum vel ljóst að vegakerfi landsins hefur gefið verulega undan þeim umferðarþunga sem skapast hefur til dæmis af aukinni umferð ferðamanna um landið. Flokkurinn vill að gert verði átak í vegamálum á næsta kjörtímabili og mun beita sér fyrir því. 

 

Flokkur fólksins (F)

 Það er nóg að verja 32 milljörðum á ári ef það á ekkert að gera annað en halda í horfi, hins vegar vantar verulega fjármuni til nýframkvæmd einsog Sundabraut, jarðgangagerð og fækka einbreiðura brúa.

 

Píratar (P)

Enn er ekki búið að klára að malbika hringinn eða tvöfalda allar brýr á hringveginum. Álag á samgöngukerfið er að aukast og því er mjög líklegt að 32 milljarðar séu ekki nóg.

 

Alþýðufylkingin (R)

Það er ekki nóg, vegna þess að kerfið hefur verið látið grotna niður undanfarin ár og þess vegna þarf að vinna upp margra ára trassaskap.

 

Samfylkingin (S)

Við erum sammála Vegagerðinni um uppbyggingu og eðlilegt viðhald. 

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V)

Ekki er ástæða til að ætla annað en að áætlanir Vegagerðarinnar um fjárþörf til nýframkvæmda og viðhalds séu raunhæfar. Svarið við spurningunni er því að gera þurfi betur en nýsamþykkt vegaáætlun gerir ráð fyrir og verja að minnsta kosti þeim 35 milljörðum króna til vegamála sem spurt er um næstu árin. þá er öllum ljóst að viðhaldi vega er ábótavant víða um land og hefur einmitt verið bent á það af hálfu Vegagerðarinnar að eins og staðar er orðin sé viðhald samgöngumannvirkja arðbærasta fjárfestingin í vegamálum. Það er því ljóst að á næstu árum verður að beina verulegum hluta fjárfestinga í vegamálum til viðhaldsverkefna og koma þannig í veg fyrir að vegirnir gangi svo úr sér að þeir verði hættulegir og ónothæfir, þessi mikilvæga sameign þjóðarinnar, samgönguinnviðirnir, grotni niður með tilheyrandi og enn meiri útgjöldum síðar.

 

 

 
2. Er framboðið samþykkt því að taka upp einkavæðingar í vegakerfinu og veggjaldainnheimtu á einstökum köflum þess? 

Nei.

Já.

Ef svarið er já? Hvernig á framkvæmd hennar að verða?

 

Svör framboðana: 

 

Björt Framtíð (A)

Já. Þar sem það getur orðið til að flýta framkvæmdum, auka öryggi og virðisauka sem hlýst af samgöngubótum.

 

Framsókn (B)

Framssóknarflokkurinn er tilbúinn að skoða ákveðna kosti og bendir á framkvæmd jarðgangna í því sambandi. En mikilvægt er að slík forgangangsröðun komi ekki niður á dreifðri byggðum þar sem áhersla er á að rjúfa einangrun byggðalaga t.d. á Austurlandi og Vestfjörðum.

 

 

Viðreisn (C)

Hvalfjarðargöngin eru dæmi um vel heppnað verkefni af þessu tagi en meta verður hvert viðfangsefni fyrir sig í ljósi staðbundinna þarfa og þjóðhagslegs mikilvægis.   

 

Sjálfstæðisflokkur (D)

Aðkoma einkaaðila að framkvæmdum í samgöngukerfinu (PPP) getur verið hagkvæm, það sýnir reynslan í nágrannalöndunum. Rétt er að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvort svo sé og hver aðkoma einkaaðila eigi að vera. Útfærslan getur verið ólík eftir því hver framkvæmdin er.

 

Íslenska þjóðfylkingin (E)

Nei

 

Flokkur fólksins (F)

Já við jarðgangagerð en almennt á ekki að fjármagna vegaframkvæmdir með veggjöldum.

 

Píratar (P)

Píratar hafa ekki samþykkta stefnu hvað þetta varðar

 

Alþýðufylkingin (R)

Nei, það er verra, dýrara og á allan hátt snargalið.

 

Samfylkingin (S)

Við viljum ekki einkvæðingu en við höfum stutt gjaldheimtu til að koma á nausynlegum samgöngubótum undir Hvalfjörð og í gegnum Vaðlaheiði. Við viljum skoða nútímalegar leiðir við gjaldtöku og fjáröflun til að efla vegagerð og bæta þjónustu. 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V)

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er andvíg einkavæðingu vegakerfisins. Að okkar mati er það afar mikilvægt að samgöngukerfið sé í eigu samfélagsins og allir íbúar landsins hafi jafnan aðgang að því. Innheimta veggjalda kemur þá og því aðeins til álita þegar um er að ræða sértækar framkvæmdir sem stytta leiðir eða riðja úr vegi þröskuldum sem réttlæta aukalega gjaldtöku á þá umferð sem nýtur samgöngubótanna. Algert skilyrði er af okkar hálfu að mannvirkin renni svo til ríkisins, þ.e.a.s. annist ríkið ekki sjálft um reksturinn og gjaldtökuna, þegar framkvæmdin hefur verið greidd upp.  

 

3. Hver er afstaða framboðsins til rafvæðingar landsamgöngutækja?

 

Svör framboðana: 

 

Björt Framtíð (A)

Björt framtíð vill rafvæða landsamgöngutæki í eins miklum mæli og hægt er og hraða uppbyggingu innviða sem auðvelda það.

 

Framsókn (B)

Framsóknarflokkurinn er mjög jákvæður til rafbílavæðingar og telur brýnt að flýta uppbyggingu hleðslustöðva um land allt svo að rafbílavæðing geti orðið raunhæfur valkostur á landsvísu á komandi árum samkvæmt sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Mikil aukning hefur orðið í framboði og sölu rafbíla að undanförnu, en margir telja að ónógir innviðir hamli þessari þróun. Til lengri tíma er reiknað með því að uppbygging innviða, svo sem hraðdælna á rafmagni verði sjálfbær, þar sem margir hafa hag af því að setja upp rafdælur.

Það er þó talið rétt að ríkisvaldið styrki tímabundið átak til að byggja upp innviði fyrir rafbíla þannig að hægt sé að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta,sem hefur nýlega orðið aðgengilegur almenningi.

Vanda þarf til verka hvað þetta varðar og taka tillit meðal annars til samkeppnissjónarmiða og reynslu Norðmanna og fleiri ríkja af verkefnum af þessu tagi. Grænu orkunni – samstarfsvettvangi um orkuskipti í samgöngum – verður falið að útfæra slíkt átak, sem verði fellt inn í framangreinda aðgerðaáætlun um orkuskipti sem lögð verður fram á Alþingi á vorþingi 2016. Sett verður til hliðar fjármagn til að tryggja að hægt verði að vinna að þessu verkefni strax á næsta ári.

 

 

Viðreisn (C)

Loftlagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn umhverfisvandi enda virðir mengun engin landamæri. Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt í baráttunni gegn þessum vanda í alþjóðlegu samstarfi. Endurheimt votlendis, aukin skógrækt, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og rafvæðing bílaflotans eru sóknarfæri sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga.

Það er stefna Viðreisnar að sett verði metnaðarfull markmið um orkuskipti íslenska hagkerfisins, þar sem dregið verði markvisst úr notkun jarðefnaeldsneytis, og markmiðum fylgt eftir með hagrænum hvötum. Til að efla rafvæðingu landsamgöngutækja er nauðsynlegt að koma upp fleiri hleðslustöðvum víðs vegar um land. Þar er einn möguleikinn að fara að dæmi þeirra þjóða sem gera olíufélögum skylt að hafa hleðslutengi fyrir rafbíla á hverri bensínstöð. Viðreisn vill leggja græna skatta á mengun.

Viðreisn vill viðhalda, a.m.k. um sinn, þeim hvata til rafbílavæðingar sem felst í niðurfellingu aðflutningsgjalda. Flokkurinn vill innleiða græna skatta sem hvata til að draga úr mengun.

 

Sjálfstæðisflokkur (D)

Rafvæðing samgöngutækja á landi er ein leið til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og getur einnig verið þjóðhagslega hagkvæm þar sem með því má nýta innlenda orkugjafa í stað erlendra.

 

Íslenska þjóðfylkingin (E)

 Íslenska þjóðfylkingin vill ná pólitískri samstöðu allra flokka um rafvæðingu landsamgöngutækja líkt og gert var forðum þegar allir flokkar náðu samstöðu um að hitaveituvæða Ísland að því marki sem hægt var. 

 

Flokkur fólksins (F)

Já takk

 

Píratar (P)

Rafvæðing er framtíðin. Komumst þangað sem fyrst.

 

Alþýðufylkingin (R)

Rafvæðing samgöngutækja er á stefnuskránni okkar, bæði ökutækja, skipa og landbúnaðarvéla. 

 

Samfylkingin (S)

Já við styðjum rafvæðingu og viljum búa til jákvæða skattalega hvata til að flýta fyrir þeirri þróun. 

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V)

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er almennt hlynnt orkuskiptum í samgöngum yfir í endurnýjanlega og hreina orkugjafa og þar með hlynnt rafvæðingu landsamgöngutækja eins og kostur er. Gildir það jafnt um einkabifreiðar og almenningsfarartæki. 

 

 

4. Sem stendur leggjast hvorki aðflutningsgjöld né virðisaukaskattur (að mestu leyti) á rafbíla, né heldur notkunarskattar. Hvernig vill framboðið innheimta notkunargjöld af rafbílum í framtíðinni?

Með notkunarsköttum á raforku til þeirra.

Eftir eknum kílómetrum.

Á annan hátt – hvernig?

 

Svör framboðana: 

 

Björt Framtíð (A)

Björt framtíð telur að í ljósi þess að á vegum landsins er fjölbreytt flóra ökutækja, þurfi að innheimta notkunargjöld eftir notkun, að taka þurfi upp eitt kerfi fyrir þær ólíku tegundir en hygla sérstaklega þeim sem eru umhverfisvænir. 

 

Framsókn (B)

 Á meðan á uppbyggingu rafbílaflotans stendur hefur Framsóknarflokkurinn ekki tekið afstöðu til þessara þátta. Enda mikilvægt að flýta fjölgun rafbíla.

 

 

Viðreisn (C)

Varðandi framtíðarskattlagningu rafbíla, þegar til lengri tíma er litið, er eðlilegt að bifreiðanotendur greiði fyrir slit og mengun bifreiða - þó svo miklvægt sé að hafa sterka hagræna hvata til rafvæðingar bílaflotans á komandi árum. Heppilegasta gjaldið væri kílómetragjald sem væntanlega verður orðið mjög auðvelt að innheimta með bættri tækni þegar þar að kemur.

 

Sjálfstæðisflokkur (D)

Fjármálaráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir kerfið  með einfalt og réttlátt skattkerfi að leiðarljósi, m.a. verði horft til að kerfið verði samræmt og skilvirkt. Starfshópurinn er að vinna að úrbótum á tæknilegum vandamálum, skoða fækkun lagabálka og skatta og samræmingu.

 

Íslenska þjóðfylkingin (E)

Það er stefna flokksins að rafbílar borgi einungis sama verð og heimilin þegar þeir fylla á geyminn á orkustöðvum. Að örðuleiti eiga ekki að vera notkunarskattar á rafbílum. Flokkurinn gæti þó fallist á að rafbílar borgi tvisvar á ári bifreiðaskatt eins og nú er gert. 

 

Flokkur fólksins (F)

Með bifreiðagjöldum sem eiga að renna ÖLL til Vegagerðarinar

 

Píratar (P)

Sparnaðurinn við að losna við innflutning á olíu fer langa leið með að greiða fyrir þau gjöld sem glatast af rafbílavæðingunni.

 

Alþýðufylkingin (R)

Höfum ekki mótað okkur skoðun á því. En við viljum hvetja mjög til rafbílavæðingar með því að halda gjöldum lágum (ef nokkrum) og með því að hafa rafmagnið annað hvort á kostnaðarverði eða helst endurgjaldslaust. Við teljum það borga sig þjóðhagslega, þar sem ekki þyrfti að borga eldsneyti með erlendum gjaldeyri.

 

Samfylkingin (S)

Við viljum nútímalegri gjaldheimtu og tilbúin til þess að skoða að skattheimtan fari eftir eknum kílómetrum. Mikilvægt er að þessi gjaldheimta ef af henni verður nýtist til uppbyggingu á góðum samgöngum. 

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V)

Mikilvægt er að álagning opinberra gjalda á rafknúnar bifreiðar verði hagað þannig að hún sé eftir sem áður hvetjandi til að þær verði teknar í notkun og notaðar. Unnt væri að leggja gjöld á raforkuna og einnig á hverja aksturseiningu. Báðar aðferðirnar hafa þá eiginleika að gjöldin leggjast á samkvæmt notkun. Þá má gera ráð fyrir að gjöld verði lögð á eftir þyngd og lengd ökutækis þannig að lægri gjöld verði á léttari og minni ökutæki en þau stærri, enda hafa hin fyrrnefndu minni umhverfisáhrif. Sérstaklega þarf að huga að förgunargjöldum á rafbíla með tilliti til rafhlaðna þeirra. Ýmsar leiðir eru færar þegar kemur að álagningu opinberra gjalda á rafknúnin samgöngutæki, sem ber að vega og meta, en gjaldtökunni verður alltaf að haga þannig að fólk hafi hvata til að nota umhverfisvæna orkugjafa og umhverfisvænan samgöngumáta fremur en þá orkugjafa sem valda mannkyninu ómældum vandræðum með útblástursmengun. Brynt er í þessu sambandi að móta og lögfesta stefnumörkun til langs tíma þannig að tryggður sé nægjanlegur fyrirsjáanleiki og að menn viti að hverju þeir ganga í þessum efnum þegar þeir taka ákvörðun um val á orkugjafa samhliða bílakaupum. Slík langtíma stefnumótun þarf að leysa af hólmi framlenginu ívilnana til umhverfisvænna  farartæka til eins árs eða skamms tíma í senn. 

                                                           

 

5. Hvað ætti að vega þyngst þegar fyrirhuguðum vegaframkvæmdum er forgangsraðað?

Umferðaröryggi.

Þjóðhagsleg arðsemi.

Atvinnuuppbygging.

Byggðaþróun?

 

Svör framboðana: 

 

Björt Framtíð (A)

Umferðaröryggi. 

 

Framsókn (B)

 Framsóknarflokkurinn vill og hefur tekið mið af öllum þessum þáttum þegar horft hefur verið til forgangsröðunar í samgöngumálum.

 

 

Viðreisn (C)

 Allir þessir þættir skipta máli en umferðaröryggi, og þar með mannslíf, hlýtur að vega mest.

 

Sjálfstæðisflokkur (D)

Huga þarf að öllum þessum sjónarmiðum þegar forgangsraðað er í samgöngumálum og framkvæmdir geta náð öllum þessum markmiðum. Eigi að velja á milli þessara sjónarmiða vega brýn öryggismál þyngst.

 

Íslenska þjóðfylkingin (E)

Íslenska þjóðfylkingin telur að huga beri að öllum þessum atriðum. 

 

Flokkur fólksins (F)

Helst á þetta að fara saman en umferðaröryggi vegur þyngra

 

Píratar (P)

Umferðaröryggi.

 

Alþýðufylkingin (R)

 Það fer einfaldlega eftir því hvar skórinn kreppir hverju sinni. Þar sem slys eru tíð þarf að byggja upp öruggari mannvirki. Þar sem byggðir eru illa tengdar hver annarri þarf að bæta tenginguna.

 

Samfylkingin (S)

Allt þetta skiptir máli. Þess vegna var uppbygging á vegakerfinu meiri en áður, seinast þegar Samfylkingin sat í ríkisstjórn og fór með ráðuneyti samgöngumála. Sú varð raunin þrátt fyrir áður óþekktan halla í ríkisfjármálum. 

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V)

Allir fjórir þættirnir sem nefndir eru í spurningunni eru góðir og gildir og hljóta að koma til álita þegar forgangsraðað er. Það er ekki vit í því að einfalda málið svo að einn þeirra hljóti alltaf og alls staðar að bera hæst. Aðstæður eru mismunandi og forsendur fyrir framkvæmdum og markmið með þeim eru það einnig. Aðferð við forgangsröðun hlýtur að taka mið af þessu.

 

 

6. Um það bil 60 prósent umferðar á Íslandi á sér stað á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni þess. Á þessu svæði myndast að sama skapi stór hluti tekna af umferð. Þar verða einnig flest alvarleg umferðarslys með tilheyrandi samfélagskostnaði, en þar er hlutfallsleg fjárveiting til vegagerðar, vegaviðhalds, samgöngubóta og umferðaröryggisbóta lang lægst, eða sem nemur 15 prósentum af framkvæmdafé til vegagerðar og vegbóta í landinu.
Er framboðið sammála þessu? Hvort sem svarið er já eða nei er óskað eftir stuttum rökstuðningi.

 Já.

Nei

 

Svör framboðana: 

 

Björt Framtíð (A)

Björt framtíð er sammála því að of litlu er varið til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Ef horft er til þess að umferðaröryggi ætti að vega þyngst við forgangsröðun þarf að veita mestu fjármagni til þess svæðis þar sem umferðin er mest. Auðvitað vitum við að óviðunandi staða er víða á vegum landsins og það þarf að huga sérstaklega að því líka.   

 

Framsókn (B)


Sjá svar við spurningu 1.

Vegakerfið hefur stórlega látið á sjá vegna viðhaldsleysis á aðeins örfáum árum. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að ein mikilvægasta fjárfesting landsmanna sé fólgin í áframhaldandi uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Stórauka þarf framlög til viðhalds og nýbyggingu vega. Auka þarf umferðaröryggi og vinna kerfisbundið eftir sérstakri umferðaröryggisáætlun.

Á næsta ári skal ráðast í sérstakt átaksverkefni til að bregðast við því hættuástandi sem víða hefur skapast í vegakerfinu.

 

 

Viðreisn (C)

Líkt og í svarinu við 5. spurningu, hlýtur öryggi vegfarenda og mannslíf að vera þyngst á metunum.  

 

Sjálfstæðisflokkur (D)

Það er mikilvægt út frá sjónarmiðum um umferðaröryggi og greiðar samgöngur á þéttbýlasta svæði landsins að auka verulega fé til framkvæmda og viðhalds á höfuðborgarsvæðinu og megin stofnbrautum sem þangað liggja.

 

Íslenska þjóðfylkingin (E)

Nei, flokkurinn telur að fjárveitingar eigi að markast af þörfinni til eðlilegs viðhalds hverju sinni og gera eigi að minnsta kosti áætlun til 3 ára um þörf á fé til vegamála í hverju kjördæmi. 

 

Flokkur fólksins (F)

Það eru til nægir peningar til að þetta eigi ekki að vera í umræðuni, vegir eiga að vera í lagi hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðini

 

Píratar (P)

Gögnin tala sínu máli þannig að já. Einnig verður samt að taka tillit til þess að samgöngugerð er ódýrari í þéttbýli en í dreifbýli. Það þýðir samt einnig að mestur hagur er af því að auka umferðaröryggi í þéttbýli þannig að það sé meira aflögu til uppbyggingar í dreifbýli.

 

Alþýðufylkingin (R)

 Á höfuðborgarsvæðinu er auðveldara að koma við góðum almenningssamgöngum heldur en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Það munar um hvern bílstjóra sem tekur strætó frekar en einkabíl. Það munar um það fyrir hann sjálfan, að spara bensín o.fl. og fyrir hina bílstjórana að umferðin minnki aðeins. Minni umferð þýðir líka færri slys, minni mengun og minni þörf fyrir uppbyggingu eða viðhald umferðarmannvirkja. Útgjöldum til samgöngubóta ætti því að forgangsraða til almenningssamgangna.

 

Samfylkingin (S)

Aðalatriði er að verja fé til samgöngumála hvort sem þau fara á höfuðborgarsvæðið eða landsbyggðina. Það er þjóðhagslega hagkvæmt, nauðsynlegt til auka öryggi og að hér sé byggð um allt land.

Við viljum að í áætlanagerð samgöngumála sé stuðst við þekkingu sérfræðinga og að ákvarðanir byggi á mati þeirra. Við gerð samgönguáætlunar verður að fara eftir skýrum vinnureglum þar sem tekið er fullt tillit til breytna eins og álags og öryggis og byggða- og atvinnuþróunar.

Vegagerðin er fagleg stofnun og við viljum hlusta á hana. Og vinna að framkvæmdum í fullu samráði við hana. 

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V)

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að betur þurfi að gera í uppbyggingu samgöngumannvirkja, ekki síst almenningssamgangna, á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Eðli málsins samkvæmt eru nærtækustu tækifærin til að auka við almenningssamgöngur í þessu fjölmennasta og víðáttumesta þéttbýli landsins. Sannarlega er þörf fyrir bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og til að þær verði eins hagstæðar og unnt er fyrir notendur og umhverfi er einboðið að leggja áherslu á innviðauppbyggingu í almenningssamgöngum á þessum slóðum og rekstur almenningssamgangna, eins og reyndar hefur verið gert í nokkrum mæli frá því á síðasta kjörtímabili. Að sjálfsögðu þarf einnig að bæta aðstæður fyrir almenn umferð á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst að auka umferðaröryggi svo vel má vera að verja þurfi meiri fjármunum til að ná þessum markmiðum í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á komandi árum.

 

 

7. Hvað telur framboðið að eigi að vera meginforsenda endurbóta og uppbyggingar vegakerfisins?

    Betri, greiðari og öruggari umferð bifreiða og vélknúinna ökutækja?

Betri og öruggari almannasamgöngur?

Hvort tveggja?

 

Svör framboðana: 

 

Björt Framtíð (A)

Björt framtíð telur að meginforsenda ætti að vera hvort tveggja, betri, greiðari og öruggari umferð og betri og öruggari almannasamgöngur en einnig þurfi að gera hjólreiðar að raunhæfum valkosti allan ársins hring með uppbyggingu hjólreiðastíga og öflugu viðhaldi þeirra.                

 

Framsókn (B)

Framsóknarflokkurinn horft sé til þess að þjóðvegir landsins geti borið þann vaxandi umferðarþunga sem er fyrirsjáanlegur. Sérstakt átaksverkefni verði sett upp við hættuástandi sem víða hefur skapast í vegakerfinu.

 

 

Viðreisn (C)

Hvort tveggja. Öryggi vegfarenda skiptir mestu. 

 

Sjálfstæðisflokkur (D)

Það er langtímamarkmið að efla almenningssamgöngur. Bættar almenningssamgöngur geta vissulega dregið úr umferð bifreiða og vélknúinna ökutækja að einhverju marki. Þörfin fyrir uppbyggingu vegakerfisins og viðhald er þó veruleg í fyrirsjáanlegri framtíð og verður því að huga að báðum þessum þáttum.

 

Íslenska þjóðfylkingin (E)

Hvort tveggja

 

Flokkur fólksins (F)

Hvort tveggja

 

Píratar (P)

Hvort tveggja. Það er ekkert svo ólíklegt að alvöru sjálfrennireiðar (sjálfkeyrandi bílar) verði algengari á næstu árum. Ef það gerist þá er í raun kominn möguleiki á allsherjarkerfi almenningssamgangna.

 

Alþýðufylkingin (R)

Bæði: Með betri almenningssamgöngum á að draga úr umferð. Sú umferð sem þó er, þarf að verða greiðari og öruggari.

 

Samfylkingin (S)

Hvort tveggja. 

 

Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V)

Í spurningunni er veruleikinn einfaldaður meira en fært er. Samgöngukerfi landsins, þar á meðal vegakerfið, er undirstaða fólks- og vöruflutninga og annar ýmiss konar annarri umferð, svo sem vegna atvinnu- og menntasóknar, brýnna aðstæðna i heilbrigðis- og löggæslumálum o.s.frv. Hlutverk samgöngumannvirkja og samgöngukerfisins er þannig margþætt og ákvarðanataka um uppbyggingu þess og viðhald þarf ávallt að taka mið af þessu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur almenningssamgöngur hentugustu leiðina til að tryggja öruggar og skilvirkar samgöngur á þéttbýlissvæðum og einnig milli þeirra. Vill því hreyfingin stuðla að uppbyggingu almenningssamgangna en einnig að góðum og öruggum akvegum um landið í þágu atvinnulífs, öryggissjónarmiða og einstaklinga sem aka einkabifreiðum.

 

 

 

Svar Húmanistaflokksins við könnuninni: 

Húmanistaflokkurinn (H)

Húmanistaflokkurinn hefur ekki mótað sér stefnu í varðandi þessi málefni. 
Við viljum vera heiðarleg svo það er ekki von á svörum frá okkur við þessum spurningum.
Við erum alveg tilbúin að hitta ykkur eftir kosningar til að fræðast um málefnið.

Bjartar kveðjur Ragnar kosningastjóri