Framtíðar mótorhjólið – þríhjól með loftpúðum

Framtíðarmótorhjólið?
Framtíðarmótorhjólið?

Erlendur sérfræðingur um umferðaröryggismál sagði eitt sinn við FÍB blaðið sem svo að ef mótorhjólið hefði verið fundið upp á síðustu árum 20. aldarinnar, hefði það aldrei fengist viðurkennt né skráð sem farartæki í almennri umferð vegna þess hve það væri hættulegt.

Svíinn Matteo Rizzi starfar við slysarannsóknir hjá sænska tryggingafélaginu Folksam og nýbakaður doktor í umferðaröryggisfræðum frá Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg. Hann tekur undir þetta í samtali við sænska Motormagasinet og segir að mótorhjól muni þróast í það að verða þríhjól með tvö framhjól og eitt afturhjól. Staðalbúnaður þeirra verði m.a. ABS hemlar, sjálfvirk nauðhemlun og loftpúðar. Þessi þróun sé þegar hafin.

Doktorsverkefni Matteo Rizzi nefnist „örugg mótorhjól.“ Rannsökuð voru raunveruleg mótorhjólaslys og í ritgerðinni segir m.a. að allt mótorhjólafólk þekki það þegar nauðhemla þarf verður hjólið óstöðugt og byrjar að skrika til. Og þegar aftur- eða framhjól læsist í hemlun tapast síðan jafnvægið, hjólið fer á hliðina og þá er voðinn vís og afleiðingarnar eru algerlega ófyrirsjáanlegar að öðru leyti en því að þær eru oftast mjög alvarlegar. Með ABS hemlum (læsivörðum) megi minnka líkur á þessari tegund slysa um 40 prósent, meiðsli á hjólafólki við árekstur verði fyrirsjáanlegri þar sem hjól og maður verði ekki viðskila afleiðingarnar því ekki eins alvarlegar.

Þessi fyrirsjáanleiki sem ABS hemlarnir þannig skapa geri það mögulegt að hefja raunhæfa vinnu við að búa til viðeigandi öryggisbúnað sem ver hinn hjólandi gagnvart afleiðingum hvers konar árekstra.  Það geti t.d. leitt til nýjunga í t.d. vegriðum sem verji mótorhjólafólk betur og mildi afleiðingar slysa og til breyttra mótorhjóla og mótorhjólaöryggisbúnaðar sem bæði dragi úr slysum og verji betur líf og limi mótorhjólafólksins. „Framtíðar mótorhjólið verður trúlega með tveimur framhjólum, loftpúðum, ABS hemlum og sjálfvirkri neyðarhemlun gagnvart hindrun framundan,“ segir Rizzi við Motormagasinet. Hann varði doktorsritgerð sína þann 3. júní sl. Hann hefur síðan þá setið fundi með öllum helstu mótorhjólaframleiðendum á Evrópumarkaði sem hafa að hans sögn sýnt mikinn áhuga á rannsóknum hans og vilja til að sveigja hönnun hjólanna í átt til öruggari farartækja.

Matteo Rizzi hóf vinnu við doktorsverkefni sitt fyrir fjórum árum þá nýbyrjaður að vinna við slysarannsóknir hjá Folksam. Hann er sjálfur mikill  mótorhjólamaður og keppir m.a. í mótorhjólaakstri á keppnisbrautum.