SETBERGSSKÓLI HLÝTUR GANGBRAUTINA 2017

Félag íslenskra bifreiðareigenda, FÍB, afhenti í gær Setbergsskóla viðurkenninguna Gangbrautin 2017 sem veitt er fyrir vel skilgreindar og vel merktar gangbrautir við skólann. 

Hrafna Hjartar Geirfinnsdóttir  og Birnir Hólm Bjarnason nemendur við skólann og María Pálmadóttir, skólastjóri, tóku á móti viðurkenningunni úr hendi Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra FÍB. Viðstaddir við athöfnina voru nemendur í 1. og 2. bekk skólans ásamt kennurum og starfsliði.

,,Við erum stolt að viðurkenningunni og hún vekur athygli á því sem vel er gert í hverfinu. Þetta er ennfremur hvetjandi fyrir okkur öll og bæjaryfirvöld til þess að vera á tánum gagnvart þessum öryggismálum í nágrenni skóla. Viðurkenningin undirstrikar að vel hefur verið unnið í þessum málum í hverfinu og vekur líka um leið athygli á umferferðaröryggi barna. Viðurkenningin hefur tvímælalaust ákveðið forvarnargildi,“ sagði María Pálmadóttir, skólastjóri Setbergsskóla, eftir móttöku viðurkenningarinnar.

Viðurkenningin er liður í gangbrautaverkefni FÍB og mun halda áfram næstu árin. Það miðar að því að kanna hversu góðar og öruggar gönguleiðir skólabarna eru og hvar er þörf á úrbótum. FÍB hyggst kanna ástand þessara mála árlega og þrýsta á um úrbætur þar sem þeirra er þörf en veita jafnframt viðurkenningu fyrir það sem vel er gert.

Í upphafi yfirstandandi skólaárs kannaði FÍB ástand gangbrautarmerkinga við skóla á höfuðborgarsvæðinu. Þá kom í ljós að á nokkrum stöðum eru þessi mál í ólestri. Víða aftur á móti má sjá vel merktar gangbrautir sem ber að fagna.

Hrafna Hjartar Geirfinnsdóttir  og Birnir Hólm Bjarnason með viðurkenningarskjöldin.
F.v Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB, Hrafna Hjartar Geirfinnsdóttir, Birnir Hólm Bjarnason og María Pálmadóttir, skólastjóri Setbergsskóla