Góður gangur í sölu nýrra bíla í Evrópu

Bílasala í Evrópu hefur verið á góðri siglingu það sem af er ári.  Bílasala innan Evrópusambandsins, í Sviss, Noregi og á Íslandi jókst í júni í ár líkt og undangengna 34 mánuði.  Á fyrri helmingi ársins 2016 voru nýskráðir 9,1 prósent fleiri bílar í þessum löndum samanborið við sama tíma 2015. Sala nýrra bíla á Íslandi eykst verulega á milli ára.  Þrátt fyrir þessa góðu sölu hafa bílaframleiðendur áhyggjur af niðurstöðum Evrópusambandskosninganna í Bretlandi og telja að úrslitin geti haft neikvæð áhrif á bílgreinina. 

8,1 milljón nýir bílar

Í það heila voru 8,1 milljón nýir fólksbílar skráðir á götuna í Evrópu (löndin hér framar) á fyrri helmingi þessa árs samkvæmt tölum frá ACEA, samtökum evrópskra bílaframleiðenda. Neytendur eru bjartsýnir og kaupgetan hefur verið góð.

Í júní jókst salan um 6,5 prósent og 1,5 milljón bílar voru nýskráðir.  Um er að ræða næstum jafn mikla sölu og í júní 2007, rétt fyrir efnahagshrunið mikla.

Sala nýrra bíla hefur verið mikil og aukist það sem af er ári í öllum stærri löndum evrópska efnahagssvæðisins.  Mestur er vöxturinn  á Ítalíu (19,2%), Spáni (12,5%), Frakklandi (8,3%), Þýskalandi (7,1%) og Bretlandi (3,2%). 

38% söluaukning á Íslandi

Góður gangur hefur verið í sölu nýrra bíla hér á landi.  Á fyrri helmingi ársins var 38% söluaukning á nýjum fólksbílum samanborið við sama tíma í fyrra. Nýskráðir fólksbílar fyrstu sex mánuðina 2016 voru 12.125 en voru 8.784 fyrstu sex mánuðina 2015. Nærri helmingur þessara nýskráninga er til bílaleiga.

Brexit veldur áhyggjum

Bílasala í Bretlandi dróst saman um 0,8% í júní. Evrópskir bílaframleiðendur óttast afleiðingar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.  Iðnaðurinn sér fram á sölusamdrátt og foráðamenn samtaka bílaframleiðenda telja líklegt að útganga Breta auki á óvissu og hafi neikvæð áhrif á bílgreinina í heild sinni.

Breska pundið hefur fallið hressilega og ekki ljóst hvort framundan séu tímar tolla og gjalda á breskar framleiðsluvörur og á innflutning til Bretlands frá löndum innan ESB.  

Fulltrúar General Motors hafa líkt Brexit við hraðahindrun og hafa þegar gripið til aðgerða til að mæta mögulegum áföllum vegna breska nei-sins.

PSA ætlar að grípa til aðgerða á haustmánuðum til að mæta aukinni óvissu.  Fyrirhugað er að stöðva framleiðslu á Peugeot og Citroën í tvo sólarhringa til að byrja með í verksmiðjum fyrirtækisns í Poissy til að mæta mögulegum samdrætti.  Frönsku Peugeot og Citroën bílarnir hafa gengið vel í breska kaupendur á liðnum árum.