Hve lengi geymist dísilolían á bílnum?

Stundum verður þess vart að fólk hafi áhyggjur af því að nútíma dísilolía  fyrir bíla hafi takmarkað geymsluþol og mun takmarkaðra en fyrir tveimur-þremur áratugum. Skyldi vera eitthvað til í þessu?

Stutta svarið er já. Sú dísilolía fyrir bíla sem seld er á Evrópska efnahagssvæðinu og þar með hér á landi, er að unnin úr jarðolíu en í hana hefur verið blandað 5% svokölluðum RME olíum sem oftast eru pálma- eða repjuolíur. Þetta er gert til að uppfylla markmið um sístækkandi hlutfall svonefndra sjálfbærra orkugjafa í bílaeldsneyti.

En íblöndunin hefur þau áhrif að olían eldist fyrr og ætti þess vegna ekki að fá að standa mikið lengur en ca eitt ár í tanknum. Talið er að óblönduð dísilolía hafi tvöfalt lengra geymsluþol.

RME íblöndunin veldur því að olían verður viðkvæmari fyrir áhrifum súrefnis. Þau áhrif lýsa sér aðallega þannig að olían skilur sig þannig að ,,vax“- agnir, jafnvel -kekkir myndast sem stífla síurnar í eldsneytiskerfum bílanna.

Þessi kekkjamyndun getur orðið vandamál á svæðum þar sem vetrarkuldar eru ríkjandi. Af þeirri ástæðu er RME olíum ekki blandað í dísilolíu sem seld er í norðlægari hlutum Skandinavíu að vetrarlagi. Íslensku olíufélögin hafa lengstum brugðist við hitamun sumars og vetrar með því að vera með sérstaka ,,vetrarolíu" á söludælum sínum þegar vetur gengur í garð.