Matt LeBlanc ráðinn aðalkynnir TopGear næstu tvö árin

Matt LeBlanc - arftaki Jeremy Clarkson í TopGear a.m.k. næstu tvö árin.
Matt LeBlanc - arftaki Jeremy Clarkson í TopGear a.m.k. næstu tvö árin.

BBC hefur samið við bandaríska leikarann Matt LeBlanc um að hann verði aðalstjórnandi og -kynnir tveggja nýrra raða sem gerðar tvö næstu árin í bílatengdu skemmtiþáttaröðinni TopGear. Matt LeBlanc var einn þeirra sem ráðnir voru að TopGear eftir að Jeremy Clarkson var rekinn og meðstjórnendur hans, þeir James May og Richard Hammond hættu í kjölfar þess.

Breska útvarps- og sjónvarpsmanninum Chris Evans var ætlað að bera áfram merki þríeykisins Clarkson/May/Hammond en það fór á annan og verri veg. Áhorf á þættina hrapaði. Chris Evans þótti afburða leiðinlegur aðalkynnir og sagt er að BBC hefði sett honum tvo kosti og báða vonda: Annaðhvort hætti hann sjálfviljugur eða hann yrði rekinn. Sé það svo hefur hann tekið fyrri kostinn.

Matt LeBlanc hefur hins vegar komið vel fyrir sem kynnir, verið hófstilltur í framkomu og launfyndinn sem vart verður sagt um Chris Evans. Nú hefur honum verið falin forystan a.m.k. næstu tvö árin. Með honum verða kynnar þeir Chris Harris and Rory Reid. Reglulegir gestir verða síðan Eddie Jordan og þýska kappakstursstjarnan Sabine Schmitz og svo auðvitað huldumaðurinn The Stig.