Mengun langmest frá bílum strax eftir kaldræsingu

Bíll sem er gangsettur á svölum morgni losar frá sér svipað magn umhverfisskaðlegra og heilsuspillandi mengunarefna á fyrstu 30 sekúndunum eftir kaldræsinguna og eðlilega heitur bíllinn losar frá sér í 500 km akstri. Ný bandarísk rannsókn leiðir þetta í ljós.

   Áður hefur m.a. sænska vegtæknistofnunin VTI komist að svipaðri niðurstöðu. Af þessum rannsóknum má draga þann lærdóm að virkasta aðgerðin til að draga úr mengun frá umferð er að forðast að kaldræsa bílana, en hvernig?

   Fyrir um áratug gengust FÍB, Landsvirkjun, Landvernd og fleiri aðilar fyrir herferð sem hafði það markmið að fjölga vélarhiturum í bílum hér á landi. Leitað var eftir aðkomu opinberra aðila eins og sveitarfélaga og ríkis, ekki síst til að koma sem víðast upp raftenglum á bílastæðum og við byggingar en undirtektir þeirra urðu litlar sem engar. Hefðu undirtektir verið góðar má slá því föstu að loftgæði væru mun betri nú í þéttbýli auk þess sem rafbílavæðing væri lengra á veg komin en hún er í dag þar sem aðgengi að hleðslutenglum væri mun víðtækara.  

   Vísindafólk frá Berkeley, Carnegie Mellon, University of California og MIT háskólunum mældu í rannsókn sinni nákvæmlega útblástur frá 25 bensínknúnum bílum og tvinnbílum í venjulegri daglegri notkun. Mest sláandi niðurstaða mælinganna er sú að lang stærsti hluti hinnar skaðlegu mengunar frá bílunum kom frá þeim nánast um leið og köld vélin datt í gang.

   –Mikilvægasti lærdómurinn sem draga má af þessari rannsókn er sá að lausnin er þegar til. Það má draga stórlega úr hinum mikla útblástursvanda frá lang stærsta hluta bílaflotans - bensín- og dísilbílum, með því að setja í þá rafmagns-vélarhitara. Þeir hita vélina upp þannig að hún hefur náð um það bil eðlilegum vinnsluhita þegar hún er ræst. Það eina sem til þarf er pólitískur vilji, segir sölustjóri sænska vélarhitaraframleiðandans DEFA við Motormagasinet í Svíþjóð.