Norsk stjórnvöld afneita væntanlegu sölubanni bensín- og dísilbíla 2025

Norsk stjórnvöld neita því staðfastlega að til standi að banna sölu bifreiða með brunahreyfla frá og með árinu 2025. Ekkert standi í nýrri samgönguáætlun um að stefnt sé að slíku banni. Talsmaður norska samgönguráðuneytisins segir við Automotive News að annað mál sé að stjórnvöld vilji hvetja bílakaupendur með ýmsum hætti, þar á meðal ívilnunum, til að velja umfram allt umhverfismilda bíla þegar keyptur er nýr bíll.

Fjölmiðlar um allan heim greindu frá því fyrr í sumar að þetta bann stæði til. Ýmsir urðu til að fagna þessu mjög, m.a. Elon Musk eigandi rafbílaframleiðandans Tesla sem talaði um bannið eins og það væri þegar lögfest og lofaði Norðmenn mjög fyrir það.

Vissulega var fótur fyrir bannfréttinni. Hann var sá að um það leyti sem verið var að púsla saman nýrri samgönguáætlun fyrir Noreg í byrjun þessa árs, þá ákváðu miðju- og hægri flokkarnir fjórir á þingi að taka undir kröfu ýmissa umhverfissamtaka og einstaklinga og styðja bann við sölu nýrra bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti. Flokkarnir fjórir vildu setja texta um slíkt bann inn í samgönguáætlunina, en tillagan um það var felld á þeirri forsendu að tæknin væri þegar á fullri ferð með að útrýma jarðefnaeldsneytisknúnum bílum og engin þörf þess vegna fyrir bannið. Talsmaður samgönguráðuneytisins segir við Automotive News að markmið stjórnvalda sé þó skýrt. Það sé að koma meðal- CO2 útblæstri nýrra bíla niður í 85 grömm pr. km frá og með árinu 2020.