Nýr Ford Bronco kemur 2020

Hugsanlegt er að nýi Bronkóinn 2020 líti einhvernveginn svona út, en það er enganveginn víst.
Hugsanlegt er að nýi Bronkóinn 2020 líti einhvernveginn svona út, en það er enganveginn víst.

Nýr Ford Bronco jeppi kemur á markað 2020. Þetta var tilkynnt á fyrsta degi bílasýningarinnar í Detroit sem nú er ný lokið. Lítið sem ekkert gáfu talsmenn Ford þó upp þar um hverskonar jeppi þetta yrði í tæknilegu tilliti eða hve stór.

    Fyrsta kynslóð Bronco jeppanna kom fram árið 1966 og sló strax í gegn á Íslandi. Frá hendi Fords var bíllinn þó ansi hrár og eiginlega bara fjögurra sæta og að öðru leyti að mestu óinnréttaður. En margir sem eignuðust Bronco breyttu þeim snarlega í lúxusjeppa þess tíma með því að innrétta þá smekklega, hita- og hljóðeinangra og setja rúmgott aftursæti í þá fyrir þrjá. Einnig bættu margir aksturseiginleika bílanna með því einu að taka fáein blöð úr afturfjöðrunum og setja öflugri tvívirka dempara við öll hjól. Það breytti miklu. Bílarnir urðu þýðari og stöðugri í akstri.

    Fyrsta kynslóð Ford Bronco kom sem fyrr segir fram árið 1966 og lifði til 1977 en þá tók nýr og mun stærri Bronkó við. Árið 1966 var hinn hugmyndaríki Lee Iaccoca forstjóri Fords. Hann og hægri hönd hans; Donald Frey, vildu endurnýja staðnaða bílaframleiðsluna í Detroit og koma fram með eitthvað nýtt sem betur höfðaði til eftirstríðskynslóðanna og fyrstu nýjungarnar voru einmitt hinn nú klassíski sportlegi Ford Mustang og svo jeppinn Ford Bronco sem skyldi vera jafnvígur til notkunar í torfærum sem á hraðbrautum. Fyrsta kynslóð beggja þessara bíla telja flestir nú hafa verið þær merkustu. Því er talið nokkuð víst að nýi Bronkóinn sem kemur 2020 muni bera sterkan svip af fyrstu kynslóðinni sem nú er orðinn safngripur víða og góð eintök seljast gegn háu verði.  

    Bæði Mustanginn og fyrsti Bronkóinn voru tímamótabílar á sinn hátt. Báðir voru hannaðir frá grunni og yfirbygging og burðarvirki beggja var hvorttveggja nýtt og átti fátt sameiginlegt með öðrum bílum Fords á þessum tíma. Sérstaklega átti þetta við  Bronkóinn. Yfirbyggingin og grindin átti nánast ekkert sameiginlegt með öðrum Ford bílum. Aðeins vélar, gírkassar og drif áttu sér samsvaranir í öðrum Fordum þessa tíma.

    Bronkókynslóðirnar urðu alls fimm og var framleiðslu á þeirri síðustu hætt árið 1996