Nýr Opel – smájeppi sem ekki er jeppi

Opel Crossland X.
Opel Crossland X.

Opel boðaði á síðasta ári margar nýjungar og nú er enn ein þeirra komin fram. Þetta er lítill ,,jepplingur“ og þó ekki, því ekkert er fjórhjóladrifið. Þessi nýi bíll heitir Crossland X, ekki ósvipaður jepplingnum Mokka, en minni. Að stærð er Crossland X áþekkur Mazda CX-3.

Crossland X er að nokkru ávöxtur samvinnu Opel og PSA (Peugeot/Citroen). Undirvagninn er sá sami og er undir Citroen C3 Picasso og Peugeot 2008. Framleiðslan fer fram í Opelverksmiðjunni í Zaragossa á Spáni. Farangursrýmið er 410 lítra en sé aftursætinu, sem situr í 15 sm löngum sleða, fært fram í fremstu stöðu úr þeirri öftustu stækkar rýmið í 520 lítra.  Sé það ekki nægjanlegt er væntanleg lengri gerð bílsins undir lok ársins. Sú nefnist Grandland X.

Crossland X og væntanlega Grandland X einnig, verða í boði með miklum þæginda- og öryggisbúnaði eins og hátæknilegum LED AFL ljósabúnaði eins og þeim sem þegar fæst í Opel Astra, Bakkmyndavél með mjög víðu sjónarhorni, sjálfvirkum búnaði til að leggja bílnum í stæði, radarsjón sem getur lesið yfirborðsmerkingar á vegi og vegaskilti, sér fótgangandi og aðrar lifandi verur framundan og allt í kring um bílinn og varar ökumann við, og auðvitað sjálfvirkri neyðarhemlun, Loks má nefna kerfi sem fylgist með ökumanninum og sér ef hann syfjar í akstri og varar hann þá við. Í bílinn verður ennfremur fáanlegt On-Star staðsetningar- og leiðsögukerfi.