Öryggi barna í bílum 2017

Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar sem starfsfólk Samgöngustofu og félagar í Slysavarnadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar gerðu á öryggi barna í bílum núna í vor. Könnunin var gerð við 56 leikskóla í 29 þéttbýliskjörnum víða um land og var búnaður hjá 2.060 börnum kannaður. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 32 ár. 

Það vekur athygli að árið 1985 voru um 80% barna alveg laus í bílum en í dag er hlutfall þeirra komið niður í 2%. Í síðustu könnun eru að baki þessum 2% alls 47 ökumenn sem hafa börnin sín beltislaus en auk þeirra voru 108 ökumenn sem höfðu börnin sín aðeins í bílbelti sem er ekki fullnægjandi öryggisbúnaður barna á þessum aldri.

28 börn voru ekki í neinum öryggisbúnaði í bíl hjá ökumönnum sem sjálfir voru í öryggisbeltum.

  
Ákveðnar undantekningarnar skyggja á annars jákvæðar niðurstöður könnunarinnar. Vitanlega ber þar hæst sú staðreynd að enn skulu finnast tilfelli þar sem öryggi barnanna er ekki tryggt með fullnægjandi öryggisbúnaði – búnaði sem getur skilið milli lífs og dauða ef slys á sér stað.

Það vekur athygli að af þessum tilfellum eru samtals 28 börn sem voru ekki í neinum öryggisbúnaði, ekki einu sinni í öryggisbeltum, í bíl hjá ökumanni sem þó gættu þess að vera sjálfir með öryggisbeltin spennt.

Hægt er að nálgast nánari umfjöllun um niðurstöður könnunnar inn á heimasíðu Samgöngustofu www.samgongustofa.is