Sænsk barrtré til bílaframleiðslu

Talsvert umfangsmiklar rannsóknir og tilraunir standa nú yfir í Svíþjóð á vegum rannsóknastofnana sem lúta að því að þróa byggingarefni í bíla úr sænsku barrskógunum. Ekki snýst þetta þó um það að byggja timburbíla, heldur að vinna koltrefjar úr trjákvoðu barrtrjáa og nýta í yfirbyggingar og burðarvirki bíla. Í rannsóknahópnum er fólk frá sænska KTH tækniháskólanum og tæknifyrirtækjunum Innventia og Swerea Sicomp.

Koltrefjaefnin sem notuð hafa verið í bíla og flugvélar hingað til eru að mestu unnin úr olíu og eru mjög dýr. Kostir koltrefjanna eru hversu léttar og níðsterkar þær eru og afar endingargóðar. Megingallinn fram að þessu hefur verið sá að framleiðsla á þeim úr olíu er ekki sjálfbær. Það er hins vegar framleiðsla á þeim úr skógum sem stöðugt endurnýja sig. Það hljóta því að teljast nokkur tíðindi að fundin sé aðferð við að framleiða koltrefjar á sjálfbæran, lífrænan hátt.

Í fréttum á heimasíðum KTH og Innventia/Swerea Sicomp má fræðast nánar um þetta mál. Þar er greint frá koltrefjaeiningum úr trjákvoðu sem hafi alla þá eiginleika sem sóst sé eftir og eigi eftir að skipta sífellt meira máli í bílum framtíðarinnar. Þeir eiginleikar séu ekki síst léttleiki, styrkur, ending og sjálfbærni. Sú trjákvoða sem um er að ræða hér er fyrst og fremst sú aukaafurð sem verður til í framleiðslu á pappírsmassa og kallast lignin. Með því að nýta efnið lignin til koltrefjaframleiðslu verður til hagkvæmt framleiðsluferli. Mikið af lignin fellur til við pappírsframleiðslu og nú þegar fundin er hagkvæm aðferð til að framleiða koltrefjar úr lignin eykst framboð af hráefni til koltrefjaframleiðslunnar verulega sem mun leiða til lækkandi verðs á koltrefjaefnum til bílaframleiðslu.