Samkomulag VW við bandarísk yfirvöld kostar 15,3 milljarða dollara

Fulltrúar Volkswagen AG og bandarískra stjórnvalda gengu í gær frá samkomulagi um lendingu dísilsvikamálsins sem þar vestra er nefnt Dieselgate. Samkvæmt því skal VW ýmist kaupa til baka eða lagfæra þá dísilbíla í USA sem útbúnir voru með búnaði sem slökkti á mengunarhreinsibúnaði vélanna nema þegar þeir voru mengunarmældir. Áætlaður heildarkostnaður VW vegna þessa er  15,3 milljarðar dollara. Af þeirri upphæð skal verja 10,033 milljörðum til styrktar þeim sem skapa og framleiða tækni sem mengar lítið eða helst ekkert.

Það var í september 2015 sem VW fyrst játaði að hafa komið fyrir leynilegum hugbúnaði fyrir í dísilbílum sem fegraði útblástursmengunargildi bílanna þannig að þau fóru allt að 40-falt fram úr lögleyfðum mörkum í venjulegri notkun. Þáverandi forstjóri hélt því fram að hann hefði ekkert um þennan hugbúnað vitað. Hann hefði verið einhverskonar einkaframtak lægra setta starfsmanna. Sú skýring þykir afar ótrúverðug og nú stendur yfir opinber rannsókn á þætti hans í málinu í Þýskalandi.

En samkomulagið í Bandaríkjunum frá í gær bindur ekki hendur dómstóla þannig að málaferli og ákærur á hendur VW vegna Dieselgatemálsins eru vel hugsanlegar eftir sem áður. Það nær einungis til þess að leysa þá kreppu sem lýtur að þeim 475 þúsund dísilbílum með hugbúnaðinn umrædda sem seldir voru í Bandaríkjunum og eigendum þeirra. Bílarnir eru árgerðir 2009-2015 af gerðunum Jetta, Bjalla, Audi A3, Golf, og Passat – allir með tveggja lítra dísilvélum.

Eigendur bílanna hafa samkvæmt samkomulaginu frest til síðla árs 2018 til að ákveða hvort þeir vilji heldur skila bílunum gegn staðgreiðslu sem verður á bilinu 5-10 þúsund dollarar eftir gerð og aldri. Endurkaup á bílunum eiga að hefjast í októbermánuði nk. þegar alríkisdómstóll hefur lagt blessun sína yfir framkvæmd samningsins bæði hvað varðar endurkaup og/eða viðgerð á bílunum. Þá bíla sem VW klaupir til baka má fyrirtækið ekki endurselja fyrr en búið er að gera við þá með þeim hætti sem yfirvöld telja fullnægjandi. Sjá nánar í frétt Reuters.