Slösuðum fjölgar talsvert á milli ára í umferðinni á Íslandi

Árið 2016 var mjög slæmt ár í umferðinni á Íslandi. Fjöldi látinna jókst úr 16 í 18 og hefur ekki verið meiri frá árinu 2006. Þó skal halda því til haga að síðastliðin tíu (2007-2016) ár hafa 126 manns látist í umferðinni á Íslandi.

Síðustu tíu ár þar á undan (1997-2006) létust 244 og því ljóst að mikið hefur áunnist í umferðaröryggismálum síðastliðinn áratug. Þetta er m.a. sem sjá má  í slysaskýrslu Samgöngustofu fyrir árið 2016.

Markviss skráning umferðarslysa hófst hér á landi árið 1966. Tilgangurinn með skráningunni er sá að komast að því hvers konar slys eiga sér stað og hver vettvangurinn og aðstæðurnar eru. Þannig er hægt að nota upplýsingar úr skráningunni til forvarna og breyta og bæta vega- og gatnakerfi þar sem slysahætta skapast. Umferðarslysaskráning Samgöngustofu byggist á lögregluskýrslum sem fengnar eru úr gagnagrunni ríkislögreglustjóra.

Bregðast þurfi við hækkandi fjölda banaslysa strax

Í skýrslunni kemur fram að bregðast þurfi við hækkandi fjölda banaslysa strax. Slösuðum fjölgar talsvert á milli ára. Alvarlega slösuðum fjölgar úr 178 í 215 á milli ára og hafa ekki verið fleiri frá árinu 1999. Er þetta aukning upp á 21% á milli ára. Lítið slösuðum fjölgar úr 1130 í 1196 á milli ára eða um 6% og hafa þeir ekki verið fleiri frá árinu 2008.

 Alls fjölgar slösuðum og látnum úr 1324 í 1429 á milli ára eða sem nemur 8%. Summa slasaðra og látinna hefur ekki verið hærri frá árinu 2008. Við samanburð við önnur lönd þarf ætíð að notast við fjölda látinna m.v. höfðatölu. Fjöldi slysa og slasaðra er ekki raunhæfur samanburður í dag og skýrist það bæði af mismunandi skilgreiningum á meiðslum og mismunandi umfangi skráningar (og þá mismikilli vanskráningu).

Samanburður við hin Norðurlöndin sýnir að árangur Íslands er ekki góður þetta árið. Erum við með flesta látna m.v. höfðatölu á Norðurlöndunum annað árið í röð en fyrir árið 2015 gerðist það síðast árið 2006. Nánar má sjá um þennan samanburð í kafla 2.6.2. Skýrsla um umferðarslys á Íslandi árið 2016 6 Árið 2016 létust 18 einstaklingar í jafnmörgum banaslysum, þrettán karlar og fimm konur.

Af þessum 18 manns voru fjórir af erlendu bergi brotnir, tveir innflytjendur og tveir ferðamenn. Þrír karlmenn létust vegna ölvunaraksturs og þrír karlmenn létust vegna fíkniefnaaksturs , þar af einn í slysi þar sem ölvun og fíkniefnanotkun var orsök slyssins. Engin kona lést vegna ölvunaraksturs eða fíkniefnaaksturs. Þrettán létust í dreifbýli en fimm í þéttbýli. Þrettán létust í fólksbifreið (tíu ökumenn og þrír farþegar), einn ökumaður vörubifreiðar, tveir bifhjólamenn og tveir fótgangandi.

Hjólreiðamenn valda næst flestum umferðarslysum

Í skýrslunni kemur einnig fram að hjólreiðamenn valda næst flestum umferðarslysum þar sem meiðsli verða. Samlífið milli þeirra sem eru akandi og hjólandi er slæmt. Hjólreiðamenn ollu 91 umferðarslysi þar sem ökumenn bifreiða slösuðust á síðasta ári. Aðeins slæm færð eins og hálka, ísing, krapi og vatnsagi ollu fleiri slysum á síðasta ári.