Stefnir í þreföldun ölvunarakstursslysa á árinu

 Í skráningu Samgöngustofu á umferðarslysum sem unnin er upp úr skýrslum lögreglu kemur fram að á fyrstu 8 mánuðum þessa árs hefur orðið mikil fjölgun umferðarslysa sem rekja má til ölvunaraksturs. Á undanförnum árum, eða allt frá árinu 2008, hefur orðið mikil fækkun umferðarslysa þar sem ölvun kemur við sögu en nú er að verða breyting til hins verra.

Sá viðsnúningur sem er að eiga sér stað er svo mikill að óhætt er að segja að svo ör aukning hafi ekki sést áður á einu ári. Hér að neðan er línurit sem sýnir þróunina frá árinu 2002 og eins og sjá má á því varð mikil aukning í efnahagsuppsveiflu áranna 2005 til 2008. Fjöldi slasaðra vegna ölvunaraksturs fór úr 42 árið 2005 í 117 árið 2008 en það samsvarar að jafnaði rúmlega 40% aukningu á ári á þessum þremur árum. Í kjölfar ársins 2008 og fram til 2015 fækkar, eins og fyrr sagði, slösuðum af völdum ölvunaraksturs umtalsvert. Fjöldi þeirra fer á 7 árum úr 117 niður í 26 árið 2015 sem er það lægsta sem sést hefur frá árinu 2002. Nú horfir hinsvegar til verri vegar.
 
 

Fyrstu átta mánuði ársins 2016 slösuðust 52 vegna ölvunaraksturs og ef fram fer sem horfir stefnir í 80 slasaða vegna ölvunaraksturs árið 2016 sem þýðir að aukningin á milli áranna 2015 og 2016 verði rúm 200% sem þýðir þreföldun í fjölda þeirra sem slasast vegna ölvunar.

Ef skoðaður er aldur þeirra ökumanna sem valda umferðarslysum á fyrstu 8 mánuðum þessa árs, sem reyndust vera undir áhrifum áfengis, þá kemur í ljós að flestir þeirra eru á aldrinum 17 – 21 árs. Á myndinni hér að neðan er aldurshópunum skipt niður á 5 ár og næst þessum aldurshópi koma ökumenn 32 - 36 ára. Hafa skal í huga að yfirleitt er fjöldi hvers aldurshóps ekki mikill yfir svona stutt tímabil en þó augljóst að yngstu ökumennirnir eru stærsti áhættuhópurinn.

Viðhorf til ölvunaraksturs breytist ekki á skömmum tíma. Það getur tekið margar kynslóðir að rækta það viðhorf sem þarf til að uppræta það hættulega sjónarmið að það sé í lagi að aka eftir neyslu áfengis.

Á undanförnum árum hefur dregið úr þeirri fræðslu og forvörnum sem höfðu, ásamt öðrum þáttum, dregið úr ölvunarakstri hér á landi. Marka þarf opinbera stefnu og langtímaáætlun um upprætingu þeirra viðhorfa sem leiða til áhættuhegðunar eins og ölvunaraksturs. Efla þarf eftirlit með ölvunarakstri og að ökumenn sem hyggjast stofna samborgurum sínum í lífshættu með slíku athæfi viti að töluverðar líkur eru á að þeir verði stoppaðir – vonandi áður en slys á sér stað.

Það er skoðun margra að lækkun refsimarka úr 0,5 prómillum í 0,2 líkt og þekkist í nokkrum löndum Evrópu muni hafi í för með sér breytt viðhorf og styrkja þá vitund að eftir eitt glas sé ekki í lagi að aka. Þess má geta að í Þýskalandi, Tékklandi, Ungverjalandi, Makedóníu, Rúmeníu og fleiri löndum er viðmiðunin, með einstaka takmörkunum, 0 prómill.

Notkun alkóhóllása er einnig talinn vera kostur sem vert er að skoða. Þeir hafa verið notaðir í sumum nágrannalanda okkar og eru helst notaðir þegar um endurtekinn ölvunarakstur er að ræða. Alkóhóllásinn hefur það í för með sér að ekki er hægt að ræsa ökutækið mælist alkóhól í öndunarsýni ökumanns.