Stóraukin skattheimta bitnar ekki síst á íbúum á landsbyggðinni

Miklar umræður hafa verið sprottið upp um fyrirhugaðar hækkanir á eldsneytissköttum í nýju fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í vikunni en það muni leiða til þess að skattaálögur íslenska ríkisins á eldsneyti verði með þeim hæstu í Evrópu. 

Eins og komið hefur fram mun bensínlítrinn hækka um tæpar 9 krónur og dísilolía um 21,80 krónur. Þetta er umtalsverð hækkun sem mundi skila ríkissjóði hátt í 6 milljörðum króna í aukar skatttekjur af bílaeldsneyti með virðisaukaskatti.  

Margir hafa lýst óánægju sinni með þessar fyrirhugaðar hækkanir á eldsneytissköttum og í þeim hópi er Bjarni Jónsson varaþingmaður VG í NV kjördæmi. Í aðsendri grein á skessuhorni.is segir Bjarni að stórhækkun skatta á olíur, bensín og hækkun þungaskatts  bitnar beint á því fólki sem þarf að sækja lengst þjónustu, hvort heldur heilsugæslu, menntun, aðföng til heimils eða atvinnureksturs. Þetta eru því beinir fjarlægðaskattar á íbúa landsins. Á sama tíma leggja stjórnvöld af eða skerða margvíslega opinbera þjónustu útum hinar dreifðu byggðir.

Bjarni segir ennfremur í umræddri grein að ef stjórnvöld fá sínu framgengt, eru framundan verulegar nýjar álögur á almenning á landsbyggðinni sem þarf að sækja sér grunnþjónustu um æ lengri veg hvort sem það ferðast sjálft á bíl eða nýtir sér flug eða aðrar almenningssamgöngur þar sem slíkt er í boði. Stóraukin skattheimta sem bitnar sérstaklega á íbúum á landsbyggðinni sem eiga sér engra annarra úrkosta en að ferðast um langan veg til að rækja erindi sín og sækja jafnvel lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem ekki er lengur til staðar í þeirra heimabyggð, verður hinsvegar ekki tekin upp nema með beinum mótvægisaðgerðum.

Grein Bjarna á skessuhorni.is má lesa hér í heild sinni.

Félagsmenn í FÍB hafa margir hverjir sett í samband við skrifstofu FÍB og líst yfir þungum áhyggjum að fyrirhuguðum hækkunum. Félagsmaður af Austfjörðum skrifaði stutt bréf og sagði.

,,Þeir sem sömdu hugmyndirnar virðast ekki vita að hluti þjóðarinnar getur ekki skroppið eftir almennri þjónustu á 2ja drifa bíl eftir söltuðum götum. Hér í mínum landshluta þarf yfir fjallvegi að fara eftir bankaþjónustu, læknisþjónustu, framhaldsskólum o.fl. o.fl. svo ekki sé minnst á vöruflutningana sem nú þegar taka stóran toll í okkar búskap. Ég vona að ekkert verði af þessu og að við getum öll lifað sátt í okkar landi, en ekki klofin í höfuðborgarsvæði gegn landsbyggð eins og ég heyrði fólk tala um hér á svæðinu í gær.“