Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar áformar gríðarlega skattahækkun á bílanotkun

Í fjárlagafrumvarpi sem fjármálaráðherra kynnti  í morgun verður olíu- og bensíngjald ,,jafnað" á næsta ári. Áhrif þess hefur í för með sér um 9 krónu hækkun á bensínlitra og um 22 krónu hækkun á dísilolíu. Þessar breytingar munu skila ríkissjóði um 6,6 milljörðum króna í auknar tekjur á næsta ári. Allar þessar tölur eru án virðisaukaskatts.

Svona mikil skattahækkun á afnot almennings af bílum hefur ekki sést í áratugi.  Þrátt fyrir þessi nöktu áform reynir fjármálaráðherra að slá ryki í augu almennings og segir að jafna eigi stöðu bensín- og dísilbíla. Fyrirhugað er að hækka skatta á notkun bensín- og dísilbíla en skattarnir á dísilbílana eiga að hækka töluvert meira.  Þetta er skattahækkun en ekki jöfnunaraðgerð. 

Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af sköttum á bílaeldsneyti eru taldar hækka um 25% miðað við nýja fjárlagafrumvarpið. Þær fara með þessu úr 26,9 milljörðum króna í 33,6 milljarða.

Miðað við áætlaða tekjuafkomu ríkissjóðs af bílasköttum í ár má gera ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af bílasköttum hækki um 10% á næsta ári og enn meira miðað við fjárlagafrumvarp síðasta árs. Tekjurnar fara úr um 72 milljörðum króna í tæpar 79 milljarða með virðisaukaskatti.

Stjórn Félags íslenskra bifreiðaeigenda kom saman til fundar í dag og ályktaði gegn boðuðum ofurhækkunum ríkisstjórnar Íslands á bílasköttum.