Telja brýnt að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar

Fjölmennur íbúafundur um tvöföldun Reykjanesbrautar var haldinn í Stapa í gærkvöldi en fundurinn var haldinn á vegum Reykjanesbæjar. Ennfremur var sýnt beint frá fundinum á vef Víkurfrétta og nýttu sér þá þjónustu hátt í eitt þúsund manns.

Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur verið baráttumál Suðurnesjamanna undanfarin ár og umferðarþungi hefur vaxið jafnt og þétt.

Bæjaryfirvöld og íbúar Reykjanesbæjar telja brýnt að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar sem allra fyrst. Umferðarþunginn sé gríðarlegur með tilheyrandi slysahættu sem bæjarbúar og aðrir notendur Reykjanesbrautar hafi miklar áhyggjur af.

Tilgangur fundarins var að varpa ljósi á stöðuna og gefa íbúum tækifæri til að leggja fram spurningar og tjá sig.

Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, ávarpaði fundinn í upphafi. Síðan flutti erindi Ísak Ernir Kristinsson frá Stopp hópnum (Stopp hingað og ekki lengra) hópi sem berst fyrir auknu umferðaröryggi á Reykjanesbraut. Þess má geta að þessi hópur telur í dag um 16 þúsund manns.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs hjá Reykjanesbæ, var með yfirlit yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á Reykjanesbraut ofan Reykjanesbæjar sem miða að auknu umferðaröryggi, hringtorg og breytt lega vega. Steinþór Jónsson, formaður FÍB, flutti erindi um öryggi á vegum, úttekt FÍB.

Þá ávarpaði Jón Gunnarsson samgönguráðherra fundinn. Ólafur Helgi Kjartansson var fundarstjóri.