Vetnisbíll GM fyrir 50 árum

Fyrsti vetnisbíll General Motors er orðinn fimmtugur. Hann var sýndur fyrst fullbúinn og gangfær í október 1966 á viðburði sem nefndist Progress of Power.  Síðan gleymdist þessi bíll í einhverri skemmu í Detroit þar sem hann uppgötvaðist og hefur hann nú verið lagfærður og mun vera orðinn gangfær á ný.

Þessi fyrsti efnarafalsbíll sögunnar var beinlínis ávöxtur tungferðaáætlunar Kennedys forseta sem svo rættist árið 1969 þegar Neil Armstrong steig fyrstur ,,á land“ á tunglinu. Tunglferðaáætlunin kallaði á nýja tækni og tæknibúnað og menn ályktuðu að eitthvað af þeim nýjungunum sem NASA var að fást við árið 1966 gæti líka nýst á jörðu niðri og því ekki að knýja bíla með vetni?

GM setti því saman hóp 200 vísinda- og tæknimanna sem hóf störf í janúar 1966 við vetnisrafbílsverkefnið Electrovan. Hópurinn fékk m.a. aðgang að rannsóknum og tilraunum NASA með efnarafala og hóf að koma saman efnarafal í bíl sem umbreytti vetni í rafmagn sem svo knúði bíl. Sá sem leiddi þennan hóp hjá GM er hinn nú 91 árs gamli Floyd Wyczalek.

Hópurinn valdi sendibílinn GMC Handivan. Tekin var úr honum V8 bensínvélin en í hennar stað kom rafmótor. Straumgjafi mótorsins var 32 eininga efnarafall sem voru seríutengdar og gátu afkastað að jafnaði 32 kW. Efnarafallinn fékk vetnið til rafmagnsframleiðslunnar úr stórum tönkum í bílnum. Rafmagnið frá rafalnum hlóðst inn á rafgeyma og var miðlað þaðan til mótorsins um straumstýribúnað. Allur var þessi búnaður bæði mjög fyrirferðarmikill og þungur þannig að heildarþyngd bílsins með þessu öllu saman var á fjórða tonn. Þar sem hámarksafl rafmótorsins var aðeins um 90 hö. var þessi fyrsti efnarafalsbíll  hvorki viðbragðssnöggur né langdrægur. En ekki verður sagt að hópurinn hafi verið að slugsa við að koma bílnum saman því að eftir 10 mánaða vinnu var hann tilbúinn til aksturs.

En fyrirferðin á tæknibúnaðinum í bílnum var þvílík að farangursrými var sáralítið. Aðeins var rúm var fyrir ökumann og tvo farþega. Upptakið úr kyrrstöðu í hundraðið var um hálf mínúta og drægið á fullum vetnistönkum var rétt yfir 200 kílómetrar. Smíði bílsins var auðvitað mjög dýr eins og raunar er títt um flest frumkvöðlastarf og þróunarvinnu. Sérstaklega varð efnarafallinn dýr vegna þess að í hann fór mikið af platínu eða hvítagulli sem er mjög dýr málmur. Floyd Wyczalek segir að platínan í bílinn hafi ein og sér kostað álíka og ca. 100 bíla floti af nýjum GM Handivan bílum af fínustu gerð.  

Notagildi þessa fyrsta vetnisrafbíl var í rauninni nánast ekki neitt, fyrst og fremst vegna þess að hvergi fyrirfundust vetnisáfyllingarstöðvar nema á rannsóknastöðinni þar sem bíllinn var byggður. Þær ökuferðir sem farnar voru á bílnum voru því aðallega um næsta nágrenni stöðvarinnar en fljótlega var bílnum lagt og hann gleymdist í geymsluskemmu einhversstaðar þar til árið 2001 að einhver rakst á hann. Þá var tilurð hans rifjuð upp og bíllinn lagfærður og pússaður upp og gerður gangfær og það er hann í dag.

Blm. FÍB blaðsins ók vetnisrafbíl fyrst fyrir rúmum áratug. Það var Benz Sprinter og vart verður sagt að hann hafi vakið sérstaka hrifningu því að bíllinn var bæði afllítill og svifaseinn. Mun skemmra er síðan sami blm. ók nýjum Hyundai ix 35 sem einmitt er vetnisrafbíll. Það var allt önnur og ánægjulegri upplifun sem færði manni heim sanninn um að tækniframfarirnar sem orðið hafa á þessum tæpu 50 árum milli GM Electrovan og Hyundai ix35 með viðkomu hjá Mercedes fyrir hálfum öðrum áratug, eru miklar - eiginlega ótrúlega miklar.