Vetrardekkin 2015-2016

Vetrardekkin 2015-2016
Vetrardekkin 2015-2016

Ný könnun á gæðum vetrarhjólbarða er komin á vef FÍB og er aðgengileg félagsmönnum.

Könnunin nær til vetrarhjólbarða sem sérstaklega eru gerðir til aksturs í vetrarríki norðlægra slóða. Könnuð eru afköst þeirra í slíkum aðstæðum og vega eiginleikar hjólbarðanna í hálku og snjó, bæði negldra og ónegldra, því þungt í könnuninni. Nánar má lesa um margvíslega getu og eiginleika hjólbarðanna úr  töflum í könnun þessari og síðan að velja sér þá tegund og gerð sem best hentar þeim aðstæðum á helsta aksturssvæði viðkomandi ekils. Það eru vetrardekkin frá Nokian í Finnlandi sem eru með hæstar heildareinkunnir að þessu sinni, bæði í flokki negldra og ónegldra.

Þau vetrardekk sem hæstar einkunnir fá í þessari könnun eru dekk sem fyrst og fremst duga í hreinu vetrarfæri eins og oft er á heiðarvegum og út um dreifðar byggðir landsins. Þau dekk sem best spjara sig í slíkum aðstæðum henta því augljóslega vel þeim sem eru á ferð á þeim svæðum landsins þar sem vetrarríki er mikið. Á það skal minnt að þau dekk sem hæsta einkunn fá eru þau sem best spjara sig á ís og í snjó. Þessi sömu dekk eru hins vegar ekki alltaf þau bestu á auðu, þurru malbiki eða rennvotu þar sem mjög erfitt er að sameina þetta tvennt í einu og sama vetrardekkinu.

Á suðvesturhorni landsins er bleyta og slabb trúlega algengasta vetrarfærið og þar getur skipt meira máli að aka á dekkjum sem ryðja vel frá sér vatni og eru ekki gjörn á að fljóta upp í akstri (Aquaplaning). Lesa má út úr töflunum hvernig einstök dekk spjara sig í þessum ólíku aðstæðum. Af þeim getur fólk því fundið þau vetrardekk sem best hæfa þess eigin aðstæðum. Heildareinkunn hvers og eins dekks er þannig hreint ekki heilög tala. Forsenda hennar er fyrst og fremst geta dekkjanna á svellglæru og í snjó.  Mörg vetrardekk sem ekki eru nefnd í þesssari FÍB/NAF vetrardekkjakönnun geta þannig hentað mjög vel á suðvesturhorni landsins - dekk sem sérstaklega eru byggð til að sem allra öruggust í bleytu og slabbi. Um þau má fræðast t.d. í vetrardekkjakönnun ADAC í Þýskalandi og FDM í Danmörku sem í grunninn er ein og sama könnunin.

Enn og aftur eru það negld vetrardekk sem spjara sig best í vetrarfæri Norðurslóða – og það með nokkrum yfirburðum yfir þau ónegldu. Hemlunarvegalengd þeirra á ís er alltaf umtalsvert styttri en hinna ónegldu. Besta óneglda vetrardekkið á ís er Michelin. Það nær samt ekki að stöðvast á 50 km hraða á klst fyrr en eftir 55,6 metra. Þá tapa þau negldu hemlunareiginleikum sínum á ís hægar eftir því sem þau slitna meir, heldur en ónegldu dekkin gera.

Negldu dekkin eru sem sagt ennþá með besta veggripið á ísnum en í akstri í snjó, skipta naglarnir minna máli. Þar bæta þeir hemlunargetuna lítt og reyndar hemla sum ónegldu  dekkin betur í snjó en þau negldu. Neglda Goodyear dekkið reyndist þó hemla best í snjónum. Þegar hemlað var á 80 km hraða stöðvaðist bíllinn eftir 51,8 metra. Hið óneglda Pirelli dekk stöðvaðist við sömu aðstæður eftir 52,2 metra. En almennt eru ónegldu dekkin þægilegri í akstri en þeu negldu. Þau eru lágværari á auðum vegi og með þau er fólk ekki jafn bundið af því að setja ónegldu vetrardekkin undir bílana eða taka þau undan þeim við tiltekna daga í dagatalinu haust og vor.

DEKKJAKÖNNUN FÍB 2015/2016 (FÍB Blaðið 3.tbl. 2015)
Ath. félagsnúmerið finnur þú framaná FÍB skírteininu þínu.