„Bíllinn er frábær og hefur komið okkur á óvart í alla staði“


Ingimar Snorri Karlsson er afar ánægður með rafbílinn sem hann fékk sér fyrir tveimur mánuðum síðan. 
Hann er hér á myndinni með eiginkonu sinni Ólöfu G. Kristjánsdóttur.


FÍB Blaðið 1.tbl 2017
„Bíllinn er frábær og hefur komið okkur á óvart í alla staði“

Það færist í vöxt að fleiri festi kaup á sínum fyrsta rafbíl og er Ingimar Snorri Karlsson í þeim hópi. Ingimar, sem alltaf hefur verið bílaáhugamaður, er búinn að eiga marga bíla um ævina. Ingimar hafði um nokkra hríð velgt því fyrir sér að kaupa rafbíl og lét núna verða að því fyrir tveimur mánuðum síðan og varð Nissan Leaf fyrir valinu. Ingimar segist vera í sjöunda himni með þessi kaup og bíllinn hafi á allan átt reynst sérlega vel og komið skemmtilega á óvart.

Ingimar mælir eindregið með því að fólk, sem sé að íhuga þennan kost, skoði það með opnum huga að festa kaup á einum slíkum. Kostirnir séu umtalsverðir og það séu ótvírætt mjög spennandi tímar fram undan hvað rafbílana áhrærir.

Snöggur og lipur

„Ég hef lengstum verið með tvo bíla. Á núna Benz-jeppa sem mér líkar mjög vel við og svo var ég einnig með eldgamlan bíl, Toyota Corolla ´89 módel. Við félagarnir í Trésmiðjunni Berki ákváðum að fyrirtækið keypti fjóra bíla af gerðinni Nissan Leaf og það verður bara að segjast eins og er að við erum allir í skýjunum með þessa bíla. Bíllinn er hljóðlítill en rafmagnsbílarnir eru gerðir þannig að aflið kemur beint. Það eru engin drifsköft og ekkert sem tefur fyrir átakinu þegar maður stígur á pinnann. Bíllinn er bara frábær, snöggur og lipur í alla staði. Bíllinn hefur komið okkur skemmtilega á óvart. Það er kannski einhverjir ennþá í vafa en ég er búinn að hitta marga rafbílaeigendur og allir eru þeir afar sáttir,“ sagði Ingimar.

Hann segir ennfremur að það sem hafi komið honum einna helst á óvart er hvað þessir bílar eru snöggir upp, hljóðlátir og mjúkir. Auðvitað er ekki allt alveg fullkomið eins og drægi bílsins. Hann er gefinn upp fyrir 250 km drægi en þeir sögðu okkur það strax í umboðinu að hann færi líklega ekki lengra en 150-180 km við venjulegar aðstæður.

Það hefur líka komið í ljós að drægi bílsins er á þessu bili á hleðslunni. Við vitum líka að þessir bílar eru ekki eins hljóðeinangraðir frá vegi. Það er meira veghljóð í rafbílnum heldur en í Bensanum sem ég á. Ingimar sagði að það breytti því ekki að kostir bílsins væri ótvíræðir.

Minnsta mál að hlaða bílinn þegar heim er komið

,,Ég keyri bílinn aðallega innanbæjar á Akureyri en svo hef ég einnig farið á honum austur í sumarbústað í Fnjóskadal. Þegar maður er að fara yfir Vaðlaheiðina tekur bíllinn eðlilega mikinn straum en þegar bílinn fer svo undan brekku austar í heiðinni er hann búinn að safna inn á sig í kringum 14 km. Þannig virkar þetta, undan brekku er hann að hlaða inn á geymirinn og eins þegar maður stígur á bremsuna. Sama er síðan uppi á teningnum þegar maður fer til baka úr bústaðnum inn á Akureyri. Það er síðan minnsta mál að hlaða bílinn þegar heim er komið. Ef eitthvað kemur upp á er hægt að komast í hraðhleðslu niðri í bæ og hann hleður um 80% á hálftímanum,“ segir Ingimar.

Rafbílarnir mjög álitlegur kostur sem fólk ætti að skoða vel

Ingimar segir að fólk eigi hiklaust að skoða möguleikana sem rafbíll hefur upp á að bjóða og þá sem aukabíl á heimilinu. Það eru að vísu ennþá vandkvæði að fara út á land en hleðslustöðvum fer sem betur fer fjölgandi. Ef ég ætlaði að keyra á bílnum suður þá þyrfti ég að stoppa t.d. í Varmahlíð til hlaða en það gætu jafnvel 3-4 bílar verið á undan mér. Það er ekki alveg ákjósanleg staða að þurfa að bíða en þetta á eftir að lagast smám saman. Það eru að vísu komnir bílar sem komast alla leið á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég prófaði að keyra Teslu á dögunum og það var í fáum orðum sagt engu líkt. Aflið í bílnum var gríðarlegt.

,,Það eru bara svo ofsalega spennandi tímar fram undan í þessum efnum. Við félagarnir í trésmiðjunni erum í að það minnsta mjög ánægðir með þessa bíla sem við festum kaup á og við förum ekki á hina bílana nema alveg í neyð. Svona öllu gamni slepptu notum við bensín og díselbílana þegar um langan veg er að fara. Rafbíllinn er mjög áhugaverður og fyrir fólk sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu er það svakalega spennandi kostur,“ segir Ingimar Snorri Karlsson.