Evrópska neytendaaðstoðin

Evrópska neytendaaðstoðin er hluti af ECC-net, sem starfrækt er í 30 löndum eða öllum aðildarríkjum EB auk Íslands og Noregs. Kostnaður vegna starfseminnar skiptist milli innanríkisráðuneytisins og Evrópubandalagsins.  Allt efni síðunnar er á ábyrgð ECC á Íslandi

 

Evrópska neytendaaðstoðin á Íslandi
tölvupóstfang: ecc@eccisland.is
símanúmer: +354-545-1200
faxnúmer: +354-545-1212

 

ECC á Íslandi

Getum við hjálpað?
Hefurðu lent í vandræðum í tengslum við kaup á vöru eða þjónustu af seljanda í öðru Evrópulandi? Veistu ekki hvert á að leita? Við getum hjálpað. Við veitum neytendum ókeypis ráðleggingar og aðstoð vegna viðskipta við erlenda seljendur og reynum að ná sáttum milli aðila. Lestu meira um ECC-netið hér að neðan.

Hvað er ECC-netið?
ECC-Ísland er hluti af ECC-netinu (European Consumer Centre Network/Evrópska neytendaaðstoðin) en það er starfrækt í 30 Evrópulöndum, eða öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs. Tilgangur netsins er að veita neytendum, sem kaupa vöru eða þjónustu af seljanda í öðru Evrópuríki, upplýsingar, leiðbeiningar og aðstoð komi upp ágreiningur vegna viðskiptanna. Þá tekur ECC-Ísland að sér milligöngu í deilumálum seljenda og neytenda, en milligangan fer þá fram með aðstoð systurstöðvar ECC-Íslands í heimalandi seljanda. Þjónusta ECC-netsins er neytendum að kostnaðarlausu en kostnaður við rekstur stöðvanna skiptist milli Evrópusambandsins og aðildarríkjanna sjálfra.

Hvernig vinnum við?
Séu neytendur ósáttir við vöru eða þjónustu sem þeir hafa keypt af erlendum seljanda er best að byrja á að kvarta við seljandann, helst skriflega, þannig að hægt sé að sýna fram á að kvörtun hafi verið send. Oft tekst neytendum og seljendum að leysa málin í sátt sín á milli í kjölfar slíkrar kvörtunar frá neytanda. Takist það hins vegar ekki tekur ECC Ísland málið til frekari skoðunar. Sé niðurstaða þeirrar skoðunar sú að neytandinn eigi réttmæta kröfu sendum við málið svo til ECC-stöðvarinnar í heimalandi seljandans sem vinnur málið þá áfram og leitar lausna. Ef ECC Íslandi berst kvörtun vegna íslensks seljanda höfum við samband við viðkomandi og reynum að leita sátta. Takist sú umleitan ekki leiðbeinum við neytendum svo um hugsanlegt framhald málsins, t.a.m. með því að aðstoða við að leggja ágreininginn fyrir kæru- eða úrskurðarnefnd sé slíkri nefnd til að dreifa. Undanfarin ár hafa um 70.000 erindi á ári að meðaltali borist netinu frá evrópskum neytendum.

Vinsamlegast athugið að ECC-netið vinnur aðeins fyrir neytendur, en ekki fyrirtæki. Þá tekur ECC Ísland ekki við kvörtunum vegna íslenskra seljenda sé kvartandinn jafnframt búsettur á Íslandi, enda tilgangur netsins að aðstoða neytendur sem lenda í vandræðum með viðskipti erlendis (eða gegnum erlendar heimasíður)  en ekki innanlandsviðskipti. Í slíkum tilvikum væri því réttara að leita t.a.m. til Neytendasamtakanna. Þá er aðeins um Evrópunet að ræða, og því ekki hægt að aðstoða neytendur vegna viðskipta þeirra í t.a.m. Bandaríkjunum. Þá er rétt að taka fram að ECC-netið fer ekki með opinbert vald af neinu tagi og getur því ekki knúið seljendur til samstarfs við sig.

Tíu góðar ástæður fyrir að hafa samband við ECC í þínu heimalandi:

  1.  Þjónustan er ókeypis!
  2. ECC-netið er starfrækt í öllum löndum innan evrópska efnahagssvæðisins.
  3. Fjármögnun skiptist milli Evrópusambandsins og aðildarríkjanna sjálfra
  4. Þú færð faglega ráðgjöf frá reyndu starfsfólki
  5. ECC-netið býður upp á raunhæfan valkost við úrlausn ágreiningsefna án þess að ráðast þurfi í kostnaðarsamar lögfræðiaðgerðir
  6. ECC-netið veitir ráðgjöf áður en kaup á vöru og þjónustu fara fram en þannig má forðast vandræði síðar meir
  7. ECC-netið veitir ráðgjöf um neytendarétt þegar verslað er í Evrópu
  8. ECC-netið býður ókeypis aðstoð þegar eitthvað fer úrskeiðis
  9. ECC-netið hefur samband við erlenda seljendur þegar ekki gengur að leysa úr ágreiningi
  10. Gangi ekki að finna lausn á deilumáli með milligöngu ECC-netsins veitir netið leiðbeiningar um hugsanlegt framhald málsins

 

 Flugfarþegar    Ferðalög   Vörur og þjónusta   Kaup á netinu 

 

Ekki gleyma ferða”appi” ECC-netsins? Það veitir ráð um flest sem viðkemur ferðalögum.

Upplýsinga app