Hugsaðu áður en þú ekur



Eitt af meginmarkmiðum FÍB er örugg umferð. Við getum og verðum öll að stuðla að öruggari umferð með því að fara að lögum og reglum, halda bílunum okkar vel við og nota þann öryggisbúnað sem í honum er og á að vera í honum.

FÍB er aðili að alþjóðasamtökum bifreiðaeigendafélaga FIA. FIA stendur að heimsátaki gegn umferðarslysum. Það felst m.a. í því að hvetja alla til að fara að umferðarreglum og nota þann öryggisbúnað sem í bílnum er.

Á Íslandi stjórnar FÍB þessu átaki í góðri samvinnu við stofnanir og fyrirtæki sem láta sig þessi mikilvægu mál varða. Félagið hefur þýtt, gefið út og dreift inn á hvert einasta heimili í landinu bæklingi þar sem leiðbeint er um notkun öryggisbúnaðar í bílum og hvers vegna búnaðurinn er svo nauðsynlegur.

Bæklingurinn nefnist Hugsadu áður en þú ekur pdf. Í honum er skýrt út í máli og myndum hversvegna öryggisbúnaður í bílum er svo nauðsynlegur og hvað gæti gerst ef hann er ekki notaður. Þennan bækling getur þú skoðað í tölvunni þinni sem PDF skjal með því að smella á nafn hans hér að ofan.