FÍB FORSÍÐA

Sunnudagur 4. október 2015
 
 
Eldsneytisvakt
Eldsneyti

BENSÍN

199,5
199,6
199,6
199,7
199,7
201,7

DÍESEL

192,2
192,3
192,3
192,5
192,5
192,5

 

Spurningin
Bílaleigur eru undanţegnar greiđslu vörugjalda af nýjum bílum sem gefa frá sér allt ađ 140 gr af CO2 á hvern ekinn kílómetra og fá allt ađ 35% afslátt af vörugjöldum á mengunarmeiri bíla. Almenningur fćr einungis bíla sem eru undir 80 gr af CO2 pr. km vörugjaldfría, en greiđir allt upp 65% vörugjöld af ţeim mengunarmeiri. Hvernig vilt ţú hafa ţetta?
Gjöldin lćkki og allir greiđi ţađ sama
Enginn greiđi vörugjöld
óbreytt ástand

Niðurstaða könnunar

 

Vefverslun

 

https://verslun.fib.is/image/cache/data/b%C3%ADllinn/taskatransweb-228x228.jpg
https://verslun.fib.is/image/cache/data/b%C3%ADllinn/solgleraugu600pix-100x100.jpg


 
Bíllinn

Bílakaup

- undirritaðu ekkert fyrr en þú ert búin(n) að fá bílinn skoðaðan rækilega

 

sd      sdf

Eitt algengasta erindi þeirra fjöldamörgu sem daglega hringja til FÍB og biðja um ráð, snýst um bílakaup. Keyptur var notaður bíll sem svo bilaði fljótlega eftir kaup og hár viðgerðakostnaður er fyrirsjáanlegur. –Hver er réttur minn? spyr kaupandinn. Er ekki ábyrgð á bílnum og á seljandinn ekki þar með að greiða fyrir viðgerðina? Er þetta ekki leyndur galli?

Þegar svo þjónustufulltrúar FÍB spyrja nánar út í málavexti kemur oft í ljós að bíllinn er gamall og slitinn og bilunin sem upp kom kannski eitt af því sem búast mátti við  af þeim sökum. Og þegar bíleigandinn hefur svarað því hvenær hann keypti bíllinn, hvað hann er gamall og mikið ekinn þá liggur beint við að spyrja: -skoðaðirðu bílinn áður en þú keyptir? Fékkstu einhvern sem þekkir vel til bíla með þér til að skoða hann, eða fórstu með hann í ástandsskoðun? Við þessum spurningum er svarið oftast nei.

Þegar komið er í ljós að kaupandi sinnti lítt eða ekkert þeirri skyldu sinni að skoða bílinn vel eða fá hann skoðaðan, þá er fátt til bjargar. Það er nefnilega svo að þegar allar verksmiðjuábyrgðir eru úr gildi fallnar er enginn sem ábyrgð ber í svona málum nema að kaupanda takist að sanna að seljandi hafi vísvitandi leynt því einhverjum ágöllum við bílinn eða hreinlega logið til um ástand hans. En við rækilega skoðun á bílnum kemur venjulega fljótt í ljós hvort það sem seljandi eða bílasali segir um hann sé sannleikanum samkvæmt eða ekki. Loks skal á það minnt að það myndast engin ábyrgð á gömlum bíl við það eitt að hann skipti um eiganda. Því skal á það minnt enn og aftur að þegar keyptur er gamall bíll er bráðnauðsynlegt að væntanlegur kaupandi skoði bílinn vel og vandlega, eða fái það gert, áður en hann undirritar nokkurn skapaðan hlut. 

En loks þá er það nú einu sinni þannig að bílar eru mis sterkir og góðir að upplagi og endast mis vel. Þetta vita margir og sú vitneskja endurspeglast oftast í endursöluverði notaðra bíla. Tegundir og gerðir sem þekktar eru að traustleika og góðri endingu halda verðgildi sínu betur og lengur en bílar sem þekktir eru fyrir að vera bilanagjarnir, ryðsæknir o.s.frv.

HVERNIG BÍLL?

Í upphafi verður að gera sér grein fyrir hvernig bíl er leitað að. Hvernig á að nota hann og hvað má hann kosta. Taka þarf tillit til stærðar, öryggis, þæginda og umhverfisins. Gerið raunhæfa fjárhagsáætlun, greiðslugetan takmarkar þá bíla sem koma til greina. Bílar eru dýrir í rekstri þannig að nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir eldsneytisnotkun, varahlutaverði og endursölumöguleikum áður en endanlegt val er ákveðið. Sýnið fyrirhyggju og metið alla kostnaðarþætti.

KANNIÐ FRAMBOÐ BIFREIÐA Á BÍLASÖLUM OG LESIÐ AUGLÝSINGAR

Farið á milli bílasala og fylgist með smáauglýsingum. Með því að kynnasér vel þá bíla sem boðnir eru til sölu er hægt að finna út markaðsverð og framboð. Ef hugmyndin er að láta bíl uppí í skiptum þarf einnig að kanna markaðsstöðu þess bíls. Það getur borgað sig að selja bíl frekar en bjóða hann í skiptum. Kynnið ykkur afföll og afslátt, það er vinna sem er fljót að borga sig. Fallið ekki fyrir sölufrösum og kannið vel bíla sem eru ódýrari en sambærilegir bílar á markaðnum. Sölumennskan leiðir af sér að flestir viðskiptavinir fá sérstakt tilboðsverð óháð því hvort það er satt og rétt. Það er hagur söluaðila að viðskiptavinurinn ákveði sig sem allra fyrst. Farið ykkur hægt og gangið til viðskipta að vel athuguðu máli, það er í flestum tilvikum meira framboð en eftirspurn. 

   Það er því miður allt of algengt að fólk í bílahugleiðingum „langi í“ einhvern bíl og vilji bara eignast hann. Þegar slíkt hugarástand er uppi getur skynsemin átt erfitt uppdráttar. Látið er hjá líða að skoða bílinn sómasamlega, fá hann ástandsskoðaðan og/eða að fá einhvern sem vel þekkir til bíla í lið með sér að líta á bílinn áður en kaupin eru gerð. Eftir að kaupsamningar hafa verið undirritaðir og eigendaskipti átt sér stað er einfaldlega of seint að gera athugasemdir við ýmislegt sem tengist aldri bíls, notkun hans og meðferð, nema þá að hreinlega hafi verið logið til um ástand bílsins – að seljandi hafi leynt kaupanda vísvitandi upplýsingum um atriði sem skiptu máli. 

METIÐ ÁSTANDIÐ

Það verður að gefa sér nægan tíma til að kanna ástand þeirra bíla sem vekja áhuga. Eigin könnun er fyrst og fremst til að flokka þá bíla frá sem ekki koma til greina. Látið ekki lauslega eigin könnun ráða úrslitum um bílaviðskipti. Þeirra sem þekkja lítið til bifreiða er ráðlagt að fá aðstoð frá vini eða ættingja sem er betur að sér, betur sjá augu en auga. (Sjá kafla um ástandsskoðun) Þar sem bílar eru flókin og margbreytileg tæki getur jafnvel vönum bifvélavirkjum yfirsést við einfalda ástandskönnun. Fagleg könnun krefst verkfæra, mælitækja og bílalyftu.

BENSÍN EÐA DÍSEL

Grundvallarreglan er að ef þú keyrir stuttar vegalengdir með bílinn þinn, ættir þú að íhuga bensín bíl. Starfsmenn sem keyra daglega 30 km eða meira ættu hins vegar að íhuga dísel. Díselbíll er yfirleitt dýrari í viðgerð en bensínbíll.

FÍB vill minna alla í bílakaupahugleiðingum á að bíll er bara einkonar heimilistæki. Notaðir bílar sem hafa verið vel hirtir og vel haldið við, eru líklegri til að duga manni betur en þeir sem hafa verið vanhirtir. Bílar sem skemmst hafa í slysum og óhöppum eru sérstaklega varasamir vegna þess þeirra lausataka sem lengstum hafa viðgengist í málum sem lúta að tjónabílum, skráningu þeirra, eftirliti með viðgerðum á þeim o.s.frv. Það hefur leitt til þess að fólk hefur slysast til að kaupa slíka bíla og reynast fljótlega hafa keypt köttinn í sekknum.Gefið ykkur góðan tíma í prufuaksturinn og akið bílnum á vegi með 90 km hámarkshraða því á 80-90 km hraða má oft greina óeðlileg hljóð, einnig er hægt að greina titring og ef bíllinn er afllítill.

   En hvað á fólk að gera þegar það er í bílahugleiðingum? FÍB hefur tekið saman tékklista sem gott er að hafa við hendina við fyrstu skoðun notaðs bíls sem til greina kemur að kaupa. Hann er svona:

Tékklisti fyrir notaða bíla

Tékklisti fyrir notaða bíla

Hefur bílnum verið haldið sæmilega við?

Hvernig er lakkið? Rispur, dældir og beyglur, litarmunur

Er framrúðan órispuð, ósprungin og laus við skemmdir eftir grjótkast?

Ef rispur, sprungur og holur sjást í sjónsviði ökumanns er rúðan ólögleg og verður að skipta um hana.

Eru ökuljósin í lagi?

Eru gler ósprungin og óbrotin og speglar í aðalljósum í lagi. Gler í aðalljósum verða að vera heil og gagnsæ og speglar í aðalljósum ótærðir.

Virka öll ljós og flautan eðlilega?

Kviknar á öllum ökuljósum bæði að aftan og framan? Er flautan í lagi?

Opnast og lokast allar dyr, vélarhlíf og skottlok áreynslulaust?

Ef ekki og ef dyr, húdd og skottlok sitja skakkt í fölsunum, getur það verið merki um að bíllinn sé viðgerður eftir tjón.

Eru hjólbarðar jafn- eða misslitnir?

Mynsturdýpt hjólbarða skal vera a.m.k. 1,6 mm til að þeir teljist löglegir. Misslitnir hjólbarðar á sama ási geta verið merki um slit í hjóla- og stýrisbúnaði en í versta falli um að bíllinn hafi orðið fyrir tjóni.

Er pústkerfið þétt?

Lekur olía úr vél eða gírkassa?

Mældu olíustöðuna sem og stöðuna á kælivökva og hemlavökva þegar vélin er köld. Ef staðan á þessum vökvum er lág, getur það verið vísbending um alvarlegar bilanir og dýrar viðgerðir.

Er rafgeymir hreinn og engar gráar útfellingar á pólunum sýnilegar?

Heldur bíllinn vatni?

Kannaðu hvort raki er í gólfi farþegarýmisins og í farangursgeymslunni. Kíktu undir motturnar. Athugaðu þetta aftur eftir að hafa reynsluekið bílnum.

Ryð?

Sjást ryðblettir á yfirbyggingunni – athugaðu sérstaklega undir hurðum, brettaköntum og í dyrafölsum. Líttu líka undir bílinn.

Eru öryggisbeltin í lagi og engar skemmdir sjáanlegar á þeim?

Eru hnakkapúðarnir tryggilega fastir og óskemmdir?

REYNSLUAKSTUR

Fer vélin eðlilega í gang?

Athugaðu hvort vélin er heit. Verið getur að heit vél geti dulið erfiða kaldræsingu og óeðlileg hljóð í og eftir ræsingu.

Virkar stöðuhemillinn?

Virka allir mælar og viðvörunarljós?

Virkar allur búnaður?

Rafmagns-rúðuvindur, samlæsing, , loftkæling, sóllúga, hliðarspeglar, afturrúðuhitari, sætahitarar o.fl.

Eru vélin laus við óeðlileg hljóð í akstri og í lausagangi?

Heyrist bank frá vélinni, málmskrölt eða glamur?

Heldur bíllinn stefnu á sléttum og beinum vegi?

Virkar kúplingin hljóðlaust og án þess að „snuða“ eða rykkja?

Gengur bíllinn létt og hljóðalaust í alla gíra í akstri? (beinskiptur bíll)?

Skiptir sjálfskiptingin um gíra án rykkja og hljóðlaust?

Hemlarnir?

Fer hemlafetillinn meira en hálfa leiðina í gólfið áður en hemlarnir grípa? Breytir bíllinn um stefnu þegar hemlað er?

Finnst titringur eða skjálfti í bílnum í akstri?

Virkar miðstöð, loftræsting og miðsstöðvarblásari?

Við mælum eindregið með því að fólk gangi aldrei frá kaupum á notuðum bíl fyrr en búið er að fara með hann í ástandsskoðun. Tékklistinn er hugsaður sem fyrsta skoðun. Ýmsir ágallar geta dulist þrátt fyrir að samviskusamlega sé farið eftir listanum og komið svo í ljós síðar þegar kaup eru um garð gengin.

ÁSTANDSSKOÐUN

Áður en gengið er frá kaupum margborgar sig að láta yfirfara bílinn af fagmanni. Skoðunarstofur og faggilt verkstæði ástandsskoða notaða bíla eftir nákvæmri forskrift og eru vel tækjum búin til að gefa nokkuð glögga og ábyrga mynd af ástandi þeirra. Árleg aðalskoðun er mjög góð en hún miðast við að athuga hvort bíll sé í öryggishæfu ástandi þegar skoðunin fer fram. Lögbundin aðalskoðun segir ekkert um ástand vélar eða annars sem ekki fellur undir öryggisbúnað bíls. Það er ekki hægt að treysta því að bíll sé góð söluvara bara af því að hann hafi staðist lögbundna skoðun.

EIGANDI OG BIFREIÐASKRÁ

Hver er skráður eigandi þess bíls sem vekur áhuga ? Gangið úr skugga um að sá sem er að selja bílinn sé lögmætur eigandi eða hafi fullgilt umboð til að annast viðskiptin. Fáið að sjá persónuskilríki og skráningarvottorð bílsins. Ráðlegt er að fá upplýsingar úr bifreiðaskrá, hjá Samgöngustofu eða löggiltum bifreiðasala um þann bíl sem áhugi er fyrir. Með því að fara yfir eigendaferil öktækis er hægt að sjá hverjir fyrri eigendur bílsins hafi verið. Hafa verið margir eigendur ? Hefur bíllinn verið í eigu tryggingafélags ? Varist að dæma út frá þessum upplýsingum en þær eru mikilvægar vísbendigar.

SKULDIR

Í bifreiðaskránni kemur fram hvort á bílnum hvíli veðskuldbindingar, bifreiðagjöld eða þungaskattur. Gangið úr skugga um að skuldbindingar seljanda séu frágengnar áður en kaup eru gerð.

MEÐFYLGJANDI GÖGN

Fáið gögn til staðfestingar á öllum fullyrðingum seljanda. Veðbókarvottorð, skírteini, skoðunarskýrslur, reikninga vegna viðgerða og varahluta, kvittanir, rekstar- og handbækur o.fl. eiga að liggja frammi. Nauðsynlegt er að fá upplýsingar um tjón færðar inn á afsal, ekki að það standi aðeins: "Kaupanda er kunnugt um að bíllinn er tjónabíll" eða "hafi verið í eigu tryggingfélags".

Úr reglugerð
Nr. 44, 15. janúar 2003 um upplýsingaskyldu í viðskiptum með notuð ökutæki. 7. gr.
Við sölu skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir:
A . Vottorð úr ökutækjaskrá sem sýnir ótvírætt að seljandi er eigandi þess ökutækis sem selt er eða hafi umboð til sölunnar.
B. Skrá yfir eigendur með sannanlegum hætti.
C. Upplýsingar um hugsanlegan tjónaferil ökutækisins með sannanlegum hætti. Þar á meðal ferilskrá um framkvæmd viðgerðar á
ökutæki sem lent hefur í tjóni. D. Hvort veðbönd hvíli á ökutækinu.
E. Skriflegar upplýsingar seljanda skv. 1.mgr.4.gr. sem fylgja skulu afsali.

ÁBYRGÐ BIFREIÐAUMBOÐA

Yfirleitt eru eldri notaðir bílar ekki á ábyrgð. Á nýlegum notuðum bílum getur enn verið ábyrgð skv. lögum sem miðast við 2ja ára ábyrgð frá fyrsta skráningardegi bíls eftir 1. júní 2001. Mörg bílaumboð bjóða upp á þriggja ára ábyrgð á nýjum bílum en til að sú ábyrgð standi þarf að viðhalda bílnum í samræmi við ábyrgðarskilmála. Gangið úr skugga um hvort ábyrgð er enn í gildi með því að hafa samband við þjónustufulltrúa bílaumboðs. Athugið einnig ryðvarnarábyrgð og skilmála sem henni fylgja.

KAUPSAMINGUR OG AFSAL

Gangið frá kaupsamningi þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um bílinn, fylgihluti og notkun. Í kaupsamning á einnig að færa inn upplýsingar um ástand, ábyrgðir og aðra skilmála. Hafið í huga að færa inn á kaupsamning allt sem um hefur samist. Aukahluti og annað sem fylgir bílnum á að skrá, séu þeir ekki til staðar eða ef seljandi tekur á sig kvaðir um viðgerð, aðalskoðun eða annað verður það að koma skilmerkilega fram í kaupsamningi. Greiðslukjör og skyldur kaupanda verða að koma afdráttarlaust fram í kaupsamningi. Skrifið aldrei undir "opið afsal", það er afsal sem á að ganga frá síðar. Slík afsöl bjóða þeirri hættu heim að inn séu færðar rangar eða falsaðar upplýsingar. Heiðursmannasamkomulag er ekki "góður pappír" í bílaviðskiptum.

GREIÐSLUR

Ef víxlar eða skuldabréf eru hluti af greiðslu þá er ófrávíkjanleg regla að kanna gildi þeirra pappíra m.a. með því að hringja í uppgefna ábyrgðarmenn og gera fyrirspurn hjá eigin viðskiptabanka. Gefið aldrei út handhafaávísun í bílaviðskiptum.

TILKYNNING OG TRYGGINGAR

Tilkynningu um eigendaskipti á ökutæki ber að koma strax til skoðunarfyrirtækis eða Samgöngustofu. Á tilkynningarblaðinu stendur að seljandi og kaupandi beri ábyrgð á að tilkynna eigendaskipti og greiðslan er á ábyrgð þeirra beggja. Það er mikið hagsmunamál kaupanda og seljanda að eigendaskiptin séu tilkynnt strax. Kaupandi getur merkt við það tryggingafélag sem hann óskar eftir ábyrgðartryggingu hjá á eigendaskiptatilkynninguna. Samkvæmt reglugerð um ábyrgðartryggingu ökutækja gildir fyrri vátrygging gagnvart nýjum eiganda í 14 daga nema bíllinn hafi verið afskráður eða gengið frá nýrri tryggingu áður. Tilkynnið eignabreytingar í gegnum síma eða myndsendi til tryggingafélagsins um leið og þær eru frágengnar. Ef kaskótryggingar er óskað þarf að hafa samband við viðkomandi tryggingafélag.

BILUN BIFREIÐAR STUTTU EFTIR KAUP

Ef kaupandi vill kanna hvort hann geti fengið bilun bætta er málið að hafa samband við seljanda og kanna hvað hann er tilbúin að gera ef seljandi vill ekkert gera þá þarf kaupandinn að fá óháðan bifvélavirkja til að skoða ástæðu bilunar hvort hún stafi út frá ófullnægjandi viðgerð eða viðhaldi á bílnum ef svo er þá getur kaupandi hugsanlega gert kröfu á seljanda.
Skoðunaskylda kaupanda er mikil því kaupandinn samþykkir bílinn í því ástandi sem hann er við undirskrift kaupsamnings.  Svo það er mikilvægt að fara með bíl í ástands skoðun og keyra bílinn þar til hann er orðin vel heitur vegna þess að það eru ýmsir hlutir bílsins sem geta virkað ágætlega s.s. vél og skipting áður en náð er fullum vinnsluhita.  Nauðsynlegt er að prófa bílinn undir álagi. Ef bilunin er þannig að hún ætti að vera augljós fagmanni sem hefði verið fenginn til að skoða bílinn fyrir kaup, þá er mjög erfitt að sækja bætur.

Lög um lausafjárkaup http://www.althingi.is/lagas/nuna/2000050.html

 21. gr. Tímamark galla.
 Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar.
 Seljandi ber einnig ábyrgð á galla sem kemur fram síðar ef ástæðu gallans má rekja til vanefnda af hans hálfu. Sama á við þegar seljandi hefur með ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum hætti ábyrgst að hluturinn hafi tiltekna eiginleika eða að hlut megi nota með venjulegum eða sérstökum hætti tiltekinn tíma eftir afhendingu.

FDM, systurfélag FÍB í Danmörku hefur rýnt í tölur um ástand bíla sem koma í ástandsskoðun í skoðunarstöðvar. Í ljós kemur að sumar tegundir fá á sig færri athugasemdir en aðrar. Það er staðfesting á því að vissara er að hugsa sig vel um áður en fest eru kaup á notuðum bílum. Tölugögnin sem skoðuð voru eru frá tímabilinu 2002-2011 og samkvæmt þeim er Skoda sú tegund sem fæsta ágalla hefur eða 4,7 á bíl. Flestir ágallarnir eru á hinum ítalska Alfa Romeo 156 með 8,3 ágalla á bíl.

Sá sem næstur Skodanum kemur er Suzuki með 4,8 ágalla og þá Toyota með 4,9. Athyglisvert er að sáralítið samhengi er milli nývirðis bílanna og ágallanna. Þannig kemur Mercedes Benz afleitlega út og er næst versta bílmerkið í þessum samanburði með 7,5 ágalla á bíl.

INNLÖGÐ SKRÁNINGARMERKI

Númeraplötur eru teknar tímabundið af bílum af tveimur ástæðum. Annað hvort getur verið um þvingunaraðgerð lögreglu að ræða eða að eigandinn skilar inn númeraplötum að eigin frumkvæði oftast til að losna undan greiðslu skatta eða tryggingariðgjalda. Skráningarmerkin skal afhenda skoðunarstöð eða Samgöngustofu til varðveislu. Þar eru skráðar dagsetningar þegar merkin eru lögð inn og tekin út. Samgöngurstofu og skoðunarstöðvum er skylt að geyma númeraplötur í allt að 12 mánuði en að þeim tíma liðnum er þeim fleygt. Tilkynna skal tryggingafélagi sérstaklega um að númer bifreiðar hafi verið lögð inn.

AFSKRÁNING BIFREIÐA

Bifreiðar ber að afskrá ef ætla má að þær séu ónýtar. Hið sama gildir um bifreiðar sem fluttar eru úr landi. Sérstök afskráningareyðublöð fást hjá skoðunarstöðvum sem bifreiðaeigandi fyllir út og undirritar. Til þess að ökutækjaskráning sé rétt, er áríðandi að eigendur ónýtra bíla ræki þessa skyldu. Veðhæfi bíla breytist ekki við afskráningu. Hægt er að endurskrá áður afskráða bíla og koma þeir þá jafnframt til skráningarskoðunar.

LÖG OG REGLUGERÐIR ER VARÐA SÖLU NOTAÐRA ÖKUTÆKJA

Lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup (tóku gildi 1. júní 2001).
Lög nr. 28/1998 um verslunaratvinnu.
Lög nr.121/1994 um neytendalán.
Reglugerð nr. 44, 15. janúar 2003 um upplýsingaskyldu í viðskiptum með notuð ökutæki.

Til baka - senda Senda - Prennta Prentvæn útgáfa - Deila

 

 Félag íslenskra bifreiðaeigenda - Skúlagata 19 - 101 Reykjavík - s. 414 9999 - fib@fib.is

 myndir/logo_arc.gifmyndir/FIA000_Logo_AFRS_RGB.JPG http://fib.is/myndir/Eurorap.png   myndir/tag_eng_rgb.jpg   fibfacebook