100.000 PSA bílar í Toyota innköllun

PSA hefur innkallað um 100 þúsund bíla af gerðunum Citroën C1 og Peugeot 107 vegna bensínfetilsvanda Toyota. Ástæðan er auðvitað sú að bílarnir sem um ræðir eru í aðalatriðum sömu bílar og Toyota Aygo smábíllinn. Allir framannefndir bílar eru byggðir í verksmiðju Toyota í Tékklandi.

Peugeot og Citroën bílarnir umræddu, byggðir á tímabilinu febrúar 2005 til og með ágúst 2009 eru því með þennan margumrædda bensínfetil sem nú er að valda Toyota um allan heim vandræðum og leiðindum.  Samkvæmt upplýsingum úr hinni opinberu bifreiðaskrá hafa 39 Citroen C1 og 43 Peugeot 107 bílar verið fluttir til landsins. Þeir verða væntanlega innkallaðir hér á landi á sama hátt og Toyotabílar hafa verið innkallaðir.

Auto Motor & Sport greinir frá því að innkallanir Toyota vegna hins stirða bensínfetils hafi byrjað í Bandaríkjunum sl. haust. Málið hefur síðan heldur betur undið upp á sig og nær nú um veröld alla. Fjöldi innkallaðra bíla vegna bensínfetilsins gætu vel orðið um níu milljón bílar í það heila tekið.

http://www.fib.is/myndir/AkioToyoda.jpg
Akio Toyoda aðalforstjóri Toyota.

Fyrst var haldið að bensínfetilságallann væri einungis að finna í bílum framleiddum í Bandaríkjunum en í ljós hefur komið að svo er ekki. Málið allt er þungt áfall fyrir Toyota. Akio Toyoda, æðsti yfirmaður Toyota, sat á dögunum leiðtogafundinn í Davos í Sviss um efnahagsmál heimsins. Þar var hann í sjónvavrpsviðtali spurður út í þessar risavöxnu innkallanir. Toyoda svaraði því til að fyrirtæki hans mæti öryggi viðskiptavina sinna mest af öllu og baðst síðan afsökunar á því að hann og hans fyrirtæki hefði valdið Toyotaeigendum heimsins áhyggjum. Hann sagði að nauðsynlegar upplýsingar yrðu gefnar hið snarasta til að létta áhyggjum af fólki. „Við munum grípa til allra hugsanlegra ráða svo koma megi í veg fyrir það að svona lagað gerist nokkurntíman aftur,“ sagði Toyoda Toyotaforstjóri í þessu sjónvarpsviðtali.