40 ára Wankel-afmæli hjá Mazda

http://www.fib.is/myndir/Mazda_cosmo_sport.jpg
Mazda Cosmo Sport - fyrsta Mazdan með Wankelvél.


Um þessar mundir eru 40 ár síðan Mazda kynnti sinn fyrsta bíl með svonefndum Wankel mótor, sem kenndur er við þann sem fann hann upp, Felix Wankel. Mazda er eftir því sem við best vitum eini bílaframleiðandinn sem býður upp á Wankelvélar í bíla sína og hefur jafnt og þétt þessi 40 ár unnið að því að þróa þessar vélar og betrumbæta. Alls hefur Mazda framleitt tæplega tvær milljónir Wankelvéla. http://www.fib.is/myndir/Wankelmotor.jpg

Þann 30. maí 1967 hófst fjöldaframleiðslan hjá Mazda á tveggja rótora Wankelvélum fyrir bíla. Fyrstu Mazda bílarnir með Wankelvélum voru sportbílar af gerð sem kallaðist Cosmo. Mazda tók við Wankelvélunum frá þýskum bílaframleiðanda sem hét NSU sem skömmu síðar sameinaðist Auto Union sem síðar varð Audi. Þjóðverjarnir höfðu þá komið fram með bílinn NSU RO-80 sem þótti tímamótabíll, bæði gullfallegur og vel byggður. Eini gallinn við bílinn var þó eiginlega Wankelvélin sem fljótlega gerðist óþétt og bæði eyddi þá miklu bensíni og brenndi mikilli smurolíu. Þeir hjá NSU náðu nefnilega aldrei góðum tökum á því að hafa vélina vel þétta. Hjá Mazda er það hins vegar ekki vandamál og Wankel vélar þeirra endast prýðilega og haldast þéttar lengi og ekkert síður en góðar hefðbundnar stimplavélar. http://www.fib.is/myndir/NSU%20RO80.jpg

NSU RO 80

Eftir Cosmo Sport hafa ýmsar gerðir Mazdabíla haft Wankelvélar undir vélarhlífinni. Þeirra frægust er ofursportbíllinn 787B sem sigraði í Le Mans 24 tíma kappakstrinum árið 1991. Með þeim sigri má segja að Wankelvélin hafi slegið rækilega í gegn og síðan hafi verið tekið mark á henni sem raunverulegum valkosti við stimplavélarnar. Í dag er sportbíllinn RX 8 þekktasti Wankelvélarbíllinn en nokkur eintök af þeirri gerð eru til hér á landi. Einmitt þessa dagana eru sjö RX 8 bílar í notkun í Japan sem ganga fyrir vetni en geta ef vetnið þrýtur ekið á bensíni.