50 milljón Súkkur

Suzuki Motor Corporation náði þeim áfanga í nýliðnum marsmánuði að hafa framleitt og selt samtals 50 milljón bíla. Af þessum 50 milljón bílum seldust 21,95 milljón bílar í heimalandinu Japan, en  28,05 milljón bílar á útflutningsmörkuðunum.

Í prósentum talið skiptast bílarnir 50 milljón þannig að 44 prósent þeirra hafa selst í Japan, 23 prósent í Indlandi, 11 prósent í Evrópu, sex prósent í Kína, þrjú prósent í Bandaríkjunum og Kanada, tvö- prósent í Mið- og S. Ameríku og 11 prósent annarsstaðar (t.d. Mið-Austurlöndum og Afríku).

Suzuki lagði upphaflega mesta áherslu á smábíla og sá fyrsti sem fór á útflutningsmarkað í október árið 1955, nefndist Suzulight (sjá mynd). Litlu bílarnir hafa æ síðan skipað stóran sess í framleiðslunni, ekki síst fjórhjóladrifnir smábílar eins og Ignis og Swift og smájepparnir Fox/Samurai og Jimny. Af minni og stærri framhjóladrifnum smábílum frá Suzuki sem margir þekkja eða muna má svo nefna Alto, Swift, Wagon R, Ignis og svo jeppana Vitara, Grand Vitara og JX sem allir eru, ásamt Fox/Samurai og Jimny, fullburða öflugir jeppar með háu og lágu drifi.

Í dag eru Suzukibílar framleiddir á 12 stöðum í 11 löndum og dreifast þaðan til 179 landa um allan heim. Suzuki er meðal stærstu bílaframleiðenda í Indlandi. Meginverksmiðja Suzuki í Evrópu er nú í Ungverjalandi. 

 Nokkrir áfangar Suzuki

10 milljón bíla markið í júní 1989
 20 milljón bíla markið í júní 1998
 30 milljón bíla markið í október 2004
 40 milljón bíla markið í júní 2009
 50 milljón bíla markið í mars 2013