Askan getur skaðað eigur fólks

„Lakk á bílum og framrúður eru auðvitað í hættu ef ekið langtímum saman í gosmekkinum og sérstaklega ef ekið er greitt. Þá virkar gosaskan eins og sandblástur - lakk og jafnvel framrúðurnar verða mattar. Ennfremur geta loftsíur orðið fljótar að fyllast og jafnvel stíflast. Því er skynsamlegt fyrir bíleigendur á svæðum þar sem öskufalls er að vænta, að eiga loftsíu til vara. Ennfremur ættu ökumenn að muna eftir því að loka fyrir loftinntak miðstöðvarinnar í bílnum til að fá ekki öskusallann inn í bílinn þegar ekið er um öskufallssvæði,“ segir Ævar Friðriksson tæknistjóri FÍB við frérttavef FÍB. Á meðfylgjandi mynd sem ljósmyndarinn Ingólfur Júlíusson tók við Öxnalæk í gær sést hversu öskufallið varv þétt þar um slóðir.

Ævar segir að séu bílar ekki þeim mun meira á ferðinni í miðju öskufallsskýi, sé vart að vænta mikilla skemmda á innviðum þeirra. Sjálfsagt sé þó að hafa allan vara á og vera ekki á ferðinni við þær aðstæður að óþörfu. Askan og rykið geti að sjálfsögðu smogið víða og hugsanlega unnið skaða á pakkdósum og legum og á rafeindabúnaði og skynjurum með tímanum

Öskufall frá gosinu í Grímsvötnum hefur verið mjög mikið frá því gosið hófst en vindáttir ráða hvar það ber niður.  Gosið nú hófst undir ís og þegar hann bráðnar og goskvikan kemst í snertingu við vatn verða sprengingar og hraunkvikan ummyndast í ösku sem dreifist með vindum. Af þessum sökum má reikna með því að öskufallið minnki þegar gosið hefur rutt jöklinum og vatnsflaumnum af sér. Það gæti gerst fljótlega því íshellan yfir gosstöðinni er ekki sérlega þykk. (Sjá hér ágætt viðtal við Reyni Böðvarsson sérfræðing hjá Uppsalaháskóla (á sænsku).

Nú er víðast hvar þurrviðri á landinu en rétt er þó að minnast þess að þegar rignir ofan í lag af gosösku sem sets hefur á bíla og húsþök, þá getur myndast brennisteinssýra sem eyðileggur lakkið. Því er hyggilegt að koma bílum í hús, eða undir yfirbreiðslu þar sem öskufalls er að vænta. Við ráðleggjum því að fylgjast vel með bæði fréttum af gosinu og með veðurspám.