Audi A5 með rafdrifi

Audi fetar nú svipaða slóð og Volvo og Peugeot og setur rafmótor í framhjóladrifinn bíl. Rafmótorinn drífur svo afturhjólin og útkoman er fjórhjóladrif. Slíkur tengiltvinnbíll af gerðinni Audi A5 e-tron quattro er nú í reynsluakstri, m.a. í Norður- Svíþjóð.

Þessi búnaður er ekki einungis til að gera bíllinn betri í vetrarfærð eða stöðugri í almennum akstri, heldur ekki síður til að framkalla minni eldsneytiseyðslu og minni CO2 útblástur. Volkswagen Group stendur nú frammi fyrir því að verða að lækka meðalútblástur bíla sinna um 8,9 prósent til að uppfylla nýjar kröfur Evrópusambandsins sem taka gildi 2015. Þær snúast um það að meðalútblástur bíla megi ekki fara yfir 130 grömm á kílómetra. Þar sem Audi er eiginlega „premium“ útgáfa Volkswagen þá má gera ráð fyrir því að mest liggi á að byrja þar.

http://www.fib.is/myndir/Audi_a5etronteknik.jpg
Í miðjustokkinn er nú komin líþíum raf-
geymasamstæða og í stað mismunadrifs
að aftan er kominn rafmótor. Rafmótor
er sömuleiðis kominn milli vélar og sjálf-
skiptingar.

 Verkfræðingar Audi hafa greinilega dottið ofan á svipaða drifbúnaðarlausn og kollegar þeirra hjá Volvo og Peugeot hafa þegar boðað að komi á markað með haustinu.  Bíllinn sem nú er verið að reynsluaka er Audi A5 Quattro sem búið er að fjarlægja afturhjóladrifið og drifskaftið en setja rafmótor í staðinn. Í stokknum þar sem drifskaftið var áður er nú komin samstæða af líþíum-rafgeymum.

 Bensínvélin í bílnum er sú samaog áður en milli hennar og sjálfskiptingarinnar er nú kominn þunnur 45 hestafla rafmótor og hann og bensínmótorinn knýja framhjólin í gegnum sjálfskiptinguna, ýmist saman eða rafmótorinn (rafmótorarnir) eftir því hvert álagið er hverju sinni, ekki ósvipað og í Toyota Prius. Rafmótorinn sem knýr afturhjólin er 81 hestafl. Hann ýmist knýr bílinn áfram einn eða sem viðbótaraflgjafi í hröðun eða þegar framhjólin eru við það að missa gripið og skrika eða spóla. Þetta kerfi kallar Audi  e-tron quattro.

 Vitanlega er aukin þyngd fylgifiskur tveggja rafmótora og rafhlöðusamstæðu sem aftur kallar á aukna eldsneytiseyðslu. Þessi tilraunabíll er þó ekki þyngri en 1.600 kíló sem er svipað og venjulegur samskonar Quattro bíll. Tekist hefur að halda þyngdinni í skefjum með því að byggja bílinn sem mest úr léttum efnum eins og áli og koltrefjaefnum.

Tekið skal fram að þeir A5 e-tron quattro tengiltvinnbílar sem nú eru í umferð eru einungis tilraunabílar og ökuhæfar frumgerðir.  Fjöldaframleiddra bíla er vart að vænta alveg í bráð og varla fyrr en nær dregur árinu 2015 þegar nýju reglurnar taka gildi.