Bílar sem skipta litum

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-dts.jpg
Cadillac DTS.

Blaðamaður á fréttavef CNN sjónvarpsstöðvarinnar rak upp stór augu á dögunum þegar skærbleikur Cadillac DTS merktur snyrtivörufyrirtækinu Mary Key renndi sér fram úr bíl hans á New Jersey hraðbrautinni. Um það leyti sem Kadillakkinn var að síga framúr byrjaði hann að skipta litum – fyrst á afturhornunum þar sem hann varð perluhvítur og síðan hvítnaði bíllinn allur og var ekki lengur á litinn eins og bleiki pardusinn.

Blaðamaðurinn setti sig í samband við aðal litahönnuð GM og staðfesti hann að sölumannabílar þessa snyrtivörufyrirtækis hefðu einmitt verið lakkaðir með lakki sem skipt gæti litum úr bleiku í perluhvítt – og öfugt.

Litahönnuðurinn sagði að þessi litaskiptatækni væri ekki beinlínis glæný – hún hefði verið þekkt um alllangt skeið en væri nú að komast í tísku því að margir bíleigendur vildu gjarnan sleppa við að horfa ætíð á sama litatóninn. Silfurliturinn þyrfti ekkert alltaf að vera silfraður og svarti liturinn ekkert alltaf svartur. Því ekki að láta af og til glitta í gull- eða purpuralitartóna eftir því sem ljós fellur á bílinn?

Leyndardómurinn er ekki síst fólginn í því að í lakkið er blandað örþunnum málmflögum sem brjóta upp ljósið sem á þær fellur. Þegar nýir bílar eru sprautaðir í verksmiðjunni var það og er enn gert með því að lakklagi með litnum er sprautað á bílinn og þegar það er þornað er sprautað glæru lakki yfir til að gefa litnum aukna dýpt. Fyrir bíla sem skipta litum er grunnlitarlaginu sprautað á, síðan er sprautað lagi af öðrum lit og er þetta síðara lakklag hálfgagnsætt. Í þessu lagi eru gjarnan settar málmflögurnar fyrrnefndu sem geta verið í enn einum litnum. Loks er svo sprautað glæru lakki yfir allt saman á endanum. „Bleiki liturinn sem þú sást er grunnliturinn en ofan á hann var sprautað silfur-sanseringu,“ sagði litahönnuðurinn við blaðamann CNN.