Bílgreinasambandið og SVÞ í öflugt samstarf

Bílgreinasambandið og SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu hófu í vikunni öflugt samstarf með undirritun samstarfsyfirlýsingar með það að markmiði að efla þjónustu við félagsmenn í samskiptum við stjórnvöld, í lögfræðilegum álitamálum og í fræðslu- og menntunarmálum ásamt því að styrkja rekstur beggja samtaka af því framkemur í fréttatilkynningu.

Flóknara rekstrarumhverfi fyrirtækja kallar á samvinnu
Rekstrarumhverfi fyrirtækja í bílgreininni og í verslun og þjónustu verður sífellt flóknara með auknum kröfum af margvíslegu tagi sem m.a. leiða til aukinna samskipta við stjórnsýsluna. Samvinna eflir þessi samskipti, eykur þjónustu og upplýsingagjöf og er til mikillar hagræðingar fyrir félagsmenn en er ekki síður mikil hagræðing fyrir stjórnsýsluna sem þarf þá að taka við færri umsögnum sem oftar en ekki eru efnislega sambærilegar. Sífellt hraðari tækniþróun kallar á aukna fræðslu og menntun sem samtökin geta eflt enn frekar með samvinnu.

Mikilvæg samvinna sem skilar sér beint til félagsmanna Bílgreinasambandsins

Stjórn og skrifstofa BGS hafa miklar væntingar til þessa samstarfs og telja sannarlega að samstarfið geti gagnast félagsmönnum BGS með margvíslegum hætti. Samstarfið er afurð þeirrar viðleitni BGS að skoða möguleika á sameiningu við SVÞ og var niðurstaða þeirra viðræðna að efla frekar formlegt samstarf. Ef vel gengur í samstarfinu þá verður stefnt að enn frekara samstarfi þegar fram líða stundir.

Miklar væntingar til samstarfsins

„Það eru klárlega samlegðaráhrif á fjölmörgum sviðum sem gerir samtökunum kleift að vinna enn betur fyrir félagsmenn sína. Samskipti við stjórnsýsluna verða markvissari og öflugri, félagsmenn Bílgreinasambandssins munu njóta góðs af aðgengi að fræðsludagskrá SVÞ, enda er eðli bílgreinarinnar í raun verslun og þjónusta, og hagræðing í rekstrarkostnaði samtakanna er augljós. Við væntum mikils af þessu samstarfi,” segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Stefnt að enn frekara samstarfi

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, fagnar samstarfinu, enda ljóst að með því verði samtökin enn sterkara hagsmunaafl fyrir félagsmenn sína. Hann segir samstarfið verða endurskoðað í lok árs og ef vel gangi sé stefnt að því að efla samstarfið enn frekar.

Mun gagnast félagsmönnum með beinum hætti

Það eru ýmsir augljósir þættir þar sem jákvæð áhrif af samstarfinu munu koma í ljós strax og gagnast báðum aðilum og félagsmönnum þeirra.

Samskipti við hið opinbera. Gríðarleg aukning hefur orðið undanfarin ár í samskiptum við stjórnsýsluna hvað varðar margvísleg mál. Bæði fjölgar umsögnum um laga- og reglugerðarbreytingar á hverju ári þar sem oftar en ekki er um að ræða sambærilega eða sömu hagsmuni fyrirtækja innan beggja samtakana. Um leið skilar samvinna á þessu sviði í hagræðingu fyrir stjórnkerfið sem þarf þá að taka við færri umsögnum sem oftar en ekki eru efnislega sambærilegar.

Fræðslu- og menntamál. Bæði samtök hafa lagt sitt á vogarskálarnar þegar kemur að því að efla menntun í þeim greinum sem samtökin þjóna.

BGS situr í ráðgjafarhópi Borgarholtsskóla þegar kemur að námi í bílgreinum ásamt því að vera með fulltrúa í starfsgreinaráði samgöngu-, farartækja- og flutningsgreina. Einnig á BGS hluta í Iðunni fræðslusetri og hefur þar fulltrúa í stjórn og varastjórn.

SVÞ eiga fulltrúa í stjórn Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks (SVS) ásamt því að móta menntastefnu fyrir fyrirtæki í verslunar- og þjónustugreinum í samvinnu við yfirvöld menntamála, launþegasamtök og önnur félagasamtök. Að auki stendur SVÞ að metnaðarfullri fræðslu- og viðburðardagskrá fyrir félagsmenn sína með því markmiði að auðvelda þeim að fylgjast með því sem er að gerast innan verslunar- og þjónustugeirans, bæði hérlendis og erlendis, með það að markmiði að auka samkeppnishæfni þeirra.

Þarna liggja augljóslega mikil samlegðaráhrif og mun félagsmönnum BGS standa til boða þátttaka í funda- og fræðsludagskrá sem SVÞ standa fyrir á árinu 2021 félagsmönnum BGS að kostnaðarlausu.

Húsnæði. Bæði samtökin eru staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Margvísleg samnýting á aðstöðu getur þannig gagnast báðum samtökum, þar á meðal samnýting á starfssvæði og starfsaðstöðu með tilheyrandi kostnaðarhagræðingu.

Lögfræðiþjónusta.Það er lögfræðingur í fullu starfi hjá SVÞ sem þekkir bílgreinina vel og þær lagakröfur sem stjórnsýslan hefur sett henni, ásamt því að hafa mikla þekkingu innan úr stjórnkerfinu sjálfu. Þetta mun nýtast skrifstofu BGS í sínum daglegu störfum. BGS mun áfram vera í samstarfi við Lögfræðistofu Reykjavíkur þegar kemur að sérmálum en hefur hún annast mál sambandsins með góðum árangri.

Aukinn styrkur fyrir BGS og félagsmenn þess

Hvatinn að þessu samstarfi er að styrkja stöðu beggja samtaka og gert sérstaklega með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Við vonum því að félagsmenn BGS taki þessum jákvæðu tíðindum fagnandi og nýti sér þau tækifæri sem í þessu munu felast, m.a. með fræðsludagskrá SVÞ sem verður kynnt betur eftir því sem líður á árið.

Fjöldi félagsmanna BGS hefur vaxið jafnt og þétt síðustu misserin og enn bætist í hópinn svo það er ljóst að sambandið hefur mörg tækifæri þegar litið er til framtíðar. Mjög gott starf hefur átt sér stað á síðustu árum þar sem árangur hefur náðst í mikilvægum málum bílgreininni til heilla. Verður byggt áfram ofan á það í störfum næstu mánaða og ára og því kærkomið að hafa aukinn slagkraft í formi samstarfs við SVÞ.