B&L að flytja

http://www.fib.is/myndir/B&L-logo.jpghttp://www.fib.is/myndir/Ingvar%20Helgaslogo.jpg
Bifreiðaumboðið B&L ehf.,  umboðsaðili fyrir Hyundai, BMW, Land Rover, Renault og Arctic Cat, mun flytja starfsemi sína að Sævarhöfða 2, þar sem bifreiðaumboðið Ingvar Helgason ehf. er til húsa, þann 30. mars næstkomandi.  Bæði félögin eru í eigu Eignarhaldsfélagsins Sævarhöfða.

„Sá mikli samdráttur sem orðið hefur í sölu á bílum og vandi sem blasir við bílgreininni í kjölfarið hefur gert það að verkum að við verðum að leita allra leiða til að hagræða í rekstrinum og gera fyrirtækin hæf til að takast á við nýjan veruleika. Ingvar Helgason ehf og B&L ehf. hafa eins og mörg önnur fyrirtæki þurft að segja upp fólki en höfum reynt að hafa það í takt við getu fyrirtækjanna til að komast í gegnum þær þrengingar sem við blasa og munum hafa það að leiðarljósi áfram.

Við höfum á undanförnum mánuðum sameinað ýmsar deildir fyrirtækjanna svo sem þjónustuver, bókhald og skrifstofu, standsetningu og þrif bíla, tölvu- og markaðsdeild ásamt sölu á notuðum bílum auk þess sem sameining hefur átt sér stað víða hjá söluaðilum okkar úti á landi,“ segir Loftur Ágústsson markaðsstjóri fyrirtækjanna.
„Við teljum að með þessum aðgerðum séum við að bregðast eins ábyrgt við og frekast er kostur því sparnaðurinn sem af þessu hlýst er verulegur og nauðsynlegur við núverandi aðstæður.

Við teljum að þessar breytingar muni styrkja okkur og viðhalda framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini okkar. Við munum einnig  nýta það besta frá báðum fyrirtækjunum til að bæta þjónustuna enn frekar“ sagði Loftur að lokum.