Bosch varaði Volkswagen við árið 2007

Þegar fyrstu fréttir frá Bandaríkjunum af fölsunarhugbúnaðarmálinu birtust, sendi íhlutaframleiðandinn Bosch frá sér sérkennilega frétt um að þótt Bosch framleiddi allan eldsneytisinnsprautunarbúnað í bíla Volkswagen og allan stjórnbúnað fyrir hann, þá Bosch alls ótengt hugbúnaðarhneykslismálinu. Bosch hefði framleitt þennan búnað algerlega eftir forskrift og fyrirmælum Volkswagen og bæri ekki neina minnstu ábyrgð á því hvernig farið hefði.

Af þessari frétt mátti semsé ráða að hjá Bosch hefðu menn vel vitað hvað var þarna á ferðinni og nú hefur þýska blaðið Bild am Sonntag komist yfir gögn frá 2007 sem staðfesta það að hjá Bosch vissu menn vel hvað var að gerast og vöruðu hátt setta Volkswagenmenn við því að setja föslunarhugbúnaðinn í bíla þar hann væri ólöglegur. Hugbúnaðurinn væri einvörðungu til nota við tilraunir og prófanir, ekki til annars. Þá greindi helgarútgáfa dagblaðsins Frankfurter Allegemeine frá því sl. sunnudag að einn af verkfræðingum Volkswagen  hefði gert athugasemdir við það árið 2011 að þessi hugbúnaður væri forritaður inn í stjórntölvur VW dísilbíla. Þessar upplýsingar hefur blaðið eftir heimildum frá innri endurskoðun Volkswagen í Wolfsburg.