Búist við mikilli umferð á vegum landsins um helgina

Ein mesta ferðahelgi ársins er framundan og búast má við að fólk verði á faraldsfæti um land allt. Viðbúið er að mikil umferð verði á Hringvegi (1) alla helgina, ekki síst í kringum höfuðborgarsvæðið.

Á umferdin.is, upplýsingavef Vegagerðarinnar, eru rauntímaupplýsingar um færð og veður, tilkynningar um lokanir og opnanir á vegum og jarðgöngum. Þar eru einnig upplýsingar um framkvæmdir á vegum og áhrif þeirra á hraða eða takmarkanir á umferð. Einnig er hægt að hafa samband við 1777, þjónustusíma Vegagerðarinnar, sem er opinn frá klukkan 06.30-20:00 alla daga.

Vegfarendur sem eiga leið um Hvalfjarðargöng sem og önnur jarðgöng um landið eru beðnir um að vera vel á verði og passa að halda góðu bili á milli ökutækja, eða 50 metra eins og kemur fram á umferðarskiltum við göng.

Umferðaróhöpp í jarðgöngum geta valdið miklum umferðartöfum, en loka þarf göngum þegar óhöpp verða til að tryggja öryggi á vettvangi.