Detroit Electric

Gamalt fyrirtæki í bandaríska bilabransanum, Detroit Electric sýndi nýjan rafknúinn sportbíl í húsakynnum sínum í Detroit nýlega. Sjálfur bíllinn er í grunninn Lotus Exige (eins og Tesla Roadster). Hann er að mestu byggður úr koltrefjum og er því bæði mjög léttur og sterkur. Rafgeymarnir eru samstæða líþíum-pólýmer rafgeyma sem geyma í sér 37 kílówattstundir af rafmagni. Rafmótorinn er 201 hestafl með 165 Newtonmetra togi.   

Detroit Electric var framleiðandi rafbíla á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Síðasti fjöldaframleiddi rafbíll fyrirtækisins rann af færibandinu árið 1937, en nú mun ætlunin að taka upp þráðinn síðan þá. Þessi nýi rafbíll er ólíkur flestum öðrum rafbílum að því leyti að við rafmótorinn er hefðbundinn gírkassi og hægt að velja milli fjögurra eða fimm gíra kassa. Viðbragðið 0-100 km/klst er 3,7 sekúndur og hámarkshraðinn er um 250 km á klst.

Þetar bíllinn er afhentur nýjum eiganda fær hann hugbúnað með bílnum til að setja í snjallsíma sinn. Eftir það stjórnar hann mestöllum atriðum í bílnum með farsímanum, eins og t.d. hleðslutíma. Síminn finnur svo út hvenær sólarhringsins rafstraumurinn kostar minnst og hleður þá inn á geymana. Þá er útvarpi og tónlistarspilun í bílnum stjórnað með símanum, sem og mörgu fleiru, eins og lýsingu inni í bílnum og hitastigi. Loks sér síminn um að staðsetja bílinn og finna hversu langt er til næsta rafhleðslustaðar þegar lækka tekur á geymunum. Með því að hafa stjórn á flestu í bílnum með þessum hætti sparast talsverð þyngd því að ekki eru nein stjórntæki í bílnum sjálfum fyrir þessa hluti.

Bílinn sjálfan er hægt að tengja beint við annan bíl og annaðhvort gefa honum straum eða þiggja straum frá honum. Þegar bíllinn er í sambandi við hleðslutengil heimavið, getur hann líka virkað sem varaaflstöð fyrir heimilið ef rafmagnið fer af húsinu. Ef það gerist sendir bíllinn SMS í farsíma eigandans og spyr hvort hann eigi að senda straum inn á rafkerfi hússins. Fullhlaðnir geta geymar bílsins séð heimilinu fyrir straumi í allt að tvo sólarhringa.