Dregur inn naglana

Spurning er hvort finnska hjólbarðaframleiðandanum hafi nú loks tekist hið ómögulega – að búa til negldan vetrarhjólbarða sem skýtur út nöglunum þegar ekið er á svelli en hefur þá annars inndregna og án snertingar við veginn. Sjá myndband.

Ýmsir hafa í áranna rás fengist við þennan vanda, að búa til búnað sem dregur naglana inn þegar ekki er þörf á þeim í akstri, en „hvessir svo klærnar“ í hálkunni. Eitt frægasta dæmið um þesskonar tilraunir (í það minnsta á Íslandi) eru tilraunir Einars Einarssonar flugvirkja á árunum milli 1960 og 1970.

Hjá Einari var það loftþrýstingurinn í dekkinu sem réði því hvort naglarnir voru úti eða inni. Hjá Nokian er það rafstraumur og búnaðinum er  stjórnað með rofa í mælaborði bílsins. Hvort búnaðurinn kemst einhverntíman í almenna framleiðslu er óvíst. Allt er málið á hugmyndar- og tilraunastigi. En tilraunirnar þykja lofa góðu, tæknin til að gera þetta mögulegt er til staðar og búnaðurinn virkar. Stóra  spurningin er bara sú: Hvað kostar þetta? Getur verðið á dekkjunum með þessum búnaði orðið skaplegt?